Stelpurnar okkar

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu spilar einhvern sinn mikilvægasta leik frá upphafi á sunnudag þegar liðið mætir Englendingum í Birmingham í síðari leik liðanna í umspili udankeppni HM.

Íslensk kvennaknattspyrna hefur verið að styrkjast á alþjóðamælikvarða ef litið er til frammistöðu íslenska kvennalandlisðins undanfarið. Liðið hækkaði um heil átta sæti á opinberum styrkleikalista kvennalandsliða á aðeins tveimur mánuðum og var liðið metið í 15. sæti í júlí fyrr í sumar. Ágætisframmistaða liðsins er það náði öðru sæti í sínum riðli í undankeppni HM tryggði Íslandi þátttöku í umspili um eina lausa sætið á HM í Kína á næsta ári. Englendingar, Frakkar og Danir tryggðu sér einnig sæti í umspilinu.

Á sunnudaginn kemur verður íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu í eldlínunni en þá mætir liðið Englendingum í síðari leik liðanna í fyrri hluta umspils udankeppni HM. Leikurinn fer fram á St.Andrews vellinum í Birmingham.

Leikurinn er mjög mikilvægur fyrir bæði liðin því sigurvegararnir trygga sér tvo leiki gegn Frökkum um eina lausa sætið á HM. Íslenska landsliðið hefur aldrei áður náð sæti á HM og því óhætt að segja að þetta sé einn mikilvægasti leikur sem liðið hefur spilað frá upphafi.

Fyrri leikur þjóðanna endaði með jafntefli 2:2 á Laugardalsvelli fyrr í vikunni og var það í fyrsta skipti sem íslenska liðinu tekst að ná stigi af enska liðinu. Englendingar þurftu að ná góðum úrslitum á Laugardalsvelli og stefndu að 3:0 sigri í fyrri leiknum en raunin varð sú að þær náðu að jafna leikinn í 2:2 fimm mínútum fyrir leikslok.

Ensku stúlkurnar voru nokkuð sigurvissar fyrir fyrri leikinn og enskir fjölmiðlar meira en svo því byrjað var að auglýsa að leik Englendinga og Frakka verði sjónvarpað beint á sjónvarpstöð SKY í október. Jafnteflið var því talsverð vonbrigði fyrir liðið þó þjálfari liðsins, Hope Powell, hafi sagst ánægð með að ná tveimur mörkum á útivelli.

Merkasti árangur enska liðsins frá upphafi er að komast í fjórðungsúrslit á HM kvenna í Svíþjóð 1995 og úrslit á Evrópumeistaramótinu í Þýskalandi síðasta sumar. Markmiðið er þó sett hærra og stefnir Knattspyrnusamband Englands að því að kvennalandslið þeirra eigi raunhæfa möguleika á sigri í HM árið 2007.

Það er því mikil pressa á enska liðinu fyrir síðari leikinn og ekki bætir úr skák fyrir enska liðið að fyrirliði og markarskori í fyrri leiknum við Ísland, Karen Walker, verður í leikbanni á sunnudag. Einnig vantar annan sterkan leikmann í enska liðið, Katie Chapman, sem er með barni.

Íslenska liðið hefur allt að vinna í leiknum og það er alveg ljóst að liðið á ágætismöguleika á sigri á sunnudag. Stelpurnar verða að spila vel og sýna stekan karakter til að ná að sigra Englendinga. Velgengni íslenska liðsins í undankeppninni er aðdáunarverð og mega Íslendingar vera stolltir af frammistöðu liðsins. Það minnsta sem við getum gert er að styðja stelpurnar okkar. Áfram Ísland.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.