Íslensk sérþekking gegn loftslagsmengun

Sérþekking Íslendinga á endurnýjanlegum orkulindum er orðin mikilvæg útflutningsvara. Aðrar þjóðir standa Íslendingum óralangt að baki, en samkvæmt nýlegri áætlun ESB er stefnt að því að 20% af orkunotkun sambandsins árið 2020 komi frá endurnýjanlegum orkulindum.

Evrópusambandið samþykkti á dögunum umhverfisáætlun sem menn þar á bæ telja afar metnaðarfulla og felur meðal annars í sér að í framtíðinni muni 20% af orkunotkun sambandsins koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum frá og með árinu 2020. Miðað við umræðuna hér á landi mætti á stundum halda að fá lönd í heiminum gerðu umhverfinu meiri skaða en Ísland. Öfgafull náttúruvernd veður uppi á kostnað raunverulegrar umhverfisverndar.

Það er í þessu tilliti fróðlegt að bera saman notkun endurnýjanlegra orkulinda hér á landi og í þeim löndum sem við helst miðum okkur við. Í OECD ríkjunum er þetta hlutfall 3-5% og nú stefnir ESB að því að koma því í 20% hjá sér. Hér á landi er þetta hlutfall 72% og fer stöðugt hækkandi.

Auðvitað búum við Íslendingar við einstakar aðstæður sem gera okkur kleift að beisla endurnýjanlegar orkulindir í ríkari mæli en aðrar þjóðir. En grundvöllur þeirrar nýtingar er þekking og hugvit. Í því er forskot Íslendinga falið og þar liggja möguleikar okkar til að hafa jákvæð áhrif umhverfismál víðar en hér á landi.

Við Íslendingar búum þess vegna yfir sérþekkingu á þessu sviði sem aðrar þjóðar sækjast mjög eftir og er nú þegar orðin útflutningsvara. Orkufyrirtækin eru leiðandi þekkingarfyrirtæki í alþjóðlegum samanburði og sérþekking þeirra mun nýtast í baráttunni við loftslagsmengun.

Sjálfskipaðir talsmenn náttúrunnar hér á landi hafa á undanförnum árum lagt ofurkapp á baráttuna gegn nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Á sama tíma blasa við önnur og brýn úrlausnarefni hér á landi, eins og til dæmis jarðvegsrof og ástand sjávarbotnsins, svo dæmi séu tekin.

Fái þessi öfgasjónarmið sem vilja banna alla framþróun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa ráðið munum við Íslendingar tapa því forskoti sem við höfum á þessu sviði. Við munum þá ekki lengur hafa fram að færa þá þekkingu sem þjóðir heims þurfa svo mjög á að halda til stemma stigu við mengun andrúmsloftsins.

Meðfylgjandi mynd er af Nesjavöllum. Höfundur myndarinnar er Oddur Sigurðsson jarðfræðingur og er myndin birt með góðfúslegu leyfi hans.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.