Munum við skilja eftir okkur verri heim?

Margir aðhyllast þau rök að það sé siðferðisleg skylda hverrar kynslóðar að skilja eftir sig heim sem er a.m.k. jafn góður og hann var þegar hún tók við honum. Umhverfisverdarsinnar hafa lengi talað um sjálfbæra þróun og kvartað yfir því að okkar kynslóð gangi á gæði jarðarinnar á ósjálfbæran hátt. Þýðir það að við séum að skilja eftir okkur verri heim en við tókum við?

Umhverfismál skipa æ veigameiri sess í þjóðfélagsumræðunni jafnt á Íslandi sem annars staðar. Í Bandaríkjunum má segja að alger bylting hafi orðið í viðhorfum almennings til umhverfismála síðustu ár. Hlýnun jarðar vegna gróðurhúsáhrifa er nú orðið eitt af stóru málunum sem hvað mest er fjallað um í hinni eilífu kosningabaráttu sem á sér stað þar í landi. Þessi bylting í Bandaríkjunum eykur til muna líkurnar á því að nýjir alþjóðasamningar takist um aðgerðir til þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Þótt það sé orðið deginum ljósara að jörðin er að hlýna af mannavöldum er alls ekki jafn augljóst hvað skynsamlegast er að gera til þess að bregðast við þessari þróun. Ef ekkert er að gert gera flestar spár ráð fyrir því að skaðinn sem hlýnun jarðar mun valda verði í kringum 4% af árlegri VLF eftir um 100 ár. Viðbrögð við hlýnun jarðar snúast því um það hversu miklu við eigum að kosta til í dag til þess að barnabarnabörnin okkar verði 4% ríkari en þau annars verða.

(Spár um skaðsemi hlýnunar jarðar eru reyndar háðar gríðarlegri óvissu sem getur haft verulega áhrif á alla útreikinga. Martin Weitzman á Harvard færir góð rök fyrir því að útreikningar sem taka ekki tillit til þessarar óvissu vanmeti hættuna sem stafar af hlýnun jarðar verulega.)

Margir aðhyllast þau rök að það sé siðferðisleg skylda hverrar kynslóðar að skilja eftir sig heim sem er a.m.k. jafn góður og hann var þegar hún tók við honum. Þessi rök eru ekki ósvipuð gullnu reglunni sem Kristur kenndi okkur: “Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra” (Matt 7.12).

Umhverfisverdarsinnar hafa lengi talað um sjálfbæra þróun og kvartað yfir því að okkar kynslóð gangi á gæði jarðarinnar á ósjálfbæran hátt. Þetta er án efa rétt ef litið er á umhverfið eitt og sér. En ef litið er á heiminn í heild er hins vegar enginn vafi á því að okkar kynslóð og allar kynslóðir a.m.k. frá upphafi iðnbyltingar hafa skilið eftir sig mun betri heim en þær tóku við. Okkar kynslóð skilur eftir sig gríðarlegar framfarir í þekkingu, menntun, heilsu, frjálslyndi og mannvirkum sem börnin okkar munu erfa sér að kostnaðarlausu.

Það er vitaskuld fráleitt að þessar stórkostlegu framfarir sem okkar kynslóð hefur lagt mikið á sig til þess að framkalla séu ekki teknar með í reikninginn þegar mat er lagt á það hvort við munum skilja eftir okkur verri heim en við tókum við.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.