Ómálefnaleg umræðupólitík

Í síðustu borgarstjórnarkosningum buðu Ungir jafnaðarmenn upp á grínfígúru sem snéri út úr hugmyndafræði frjálshyggjunar í staðinn fyrir málefnalega umræðu. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar er uppteknari við reyfarakennd samsærisskrif en raunverulega pólitík. Hversu málefnalegri kosningabaráttum má reikna með nú í vor?

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum var sú ákvörðun tekin af ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar að sniðugra væri fyrir þá að snúa út úr hugmyndafræði mótherja sinna með aulahúmer heldur en að setja fram eigin stefnumál. Ungir jafnaðarmenn framleiddu og sýndu auglýsingar þar sem meintur ungur frjálshyggjumaður, sennilega úr sjálfstæðisflokknum, var látinn þylja upp ýmis konar þvælu sem átti gjarnan enga stoð í raunveruleikanum og líktist ekki stefnuskrá neins þeirra flokka sem bauð sig fram í höfuðborginni.

Samfylkingin hefur undanfarin misseri tekið í síauknum mæli upp svona aðferðir. Hún talar minna um pólitík en beinir kröftum sínum í fremur ómálefnalegar árásir á þá sem ekki eru henni sammála. Þetta er er til að mynda áberandi á heimasíðu þingflokksformannsins þar sem mikil og vönduð vinna er lögð í að setja fram skáldlegar lýsingar af því sem höfundurinn ímyndar sér að eigi sér stað innan annarra flokka. Það má raunar telja Össuri til tekna að hann er framúrskarandi húmoristi og stílisti þannig að jafnvel gremjulegustu pistlarnir verða hinn prýðilegasti skemmtilestur. Það fer hins vegar ákaflega lítið fyrir því að hann noti stílsnilld sína til þess að tala um málefni eða berjast á hefðbundinn hátt fyrir sjónarmiðum sínum, nema auðvitað það sé hans helsta pólitíska hugsjón að gera fólki sem hann þekkir ekki upp skoðanir og innræti. Án þess að vilja falla í sömu gryfju ætla ég að vona að þetta sé ekki raunin heldur sé Össur aðeins að reyna að vera fyndinn og að hann haldi í raun ekki það um fólk sem hann skrifar um það.

Nú, í aðdraganda þingkosninga, hefur orðið töluverð fjölgun á virkum bloggsíðum. Frambjóðendur og þekktir málsvarar úr stjórnmálaflokkunum hafa ýmist komið sér upp bloggsíðum eða blásið í þær. Um þessa þróun er ekkert nema gott að segja. Það er hins vegar spurning hversu mikið gagn það gerir í stjórnmálaumræðunni þegar nafnlausar vefsíður, sem hvorki skrá höfunda, útgefendur eða ábyrgðarmenn, eru settar upp í þeim tilgangi að gera lítið úr fólki eða snúa út úr pólitískri umræðu. Það er ekkert að því að ritstjórnir birti nafnlaust efni en þá kröfu verður að gera að ábyrgðin liggi einhvers staðar. Frelsi og ábyrgð eru óaðskiljanleg hugtök – og það á svo sannarlega við þegar tjáningarfrelsið og ritstjórnarábyrgðin eru annars vegar.

Dæmi um þetta á netinu er mörg. Meðal annars hefur nýlega verið opnuð síða sem helguð er því að afbaka kenningar frjálshyggjunnar, væntanlega með svipuð markmið og ungir jafnaðarmenn höfðu fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Sá sem heldur á penna hins meinta frjálshyggjumanns er greinilega enginn aukvisi þegar kemur að pólitískri hugmyndafræði, stílbrögðum eða áróðurstækni. Ef viðkomandi er ekki þegar kominn á kaf í pólitík þá væri hann klárlega hvalreki fyrir þann flokk sem nyti krafta hans. Ef viðkomandi er þegar á kafi í pólitík þá ætti sá hinn sami ekki að þurfa að skammast sín svo mikið fyrir skrif sín að hann þori ekki að koma fram undir nafni.

Hvort þetta nýja blogg tengist stjórnmálaflokki er ómögulegt að segja en líklega hefur höfundur síðunnar tekið sér margt það til fyrirmyndar sem ungir jafnaðarmenn gerðu með áðurnefndum sjónvarpsauglýsingum síðasta vor. Eftir stendur þó að þeir sem stöðugt vilja breyta stjórnmálaumræðunni í heimskulegan sandkassaleik eru ekki að gera lýðræðinu eða stjórnmálunum gagn – sama hvað þeim finnst það fyndið.

ÞK

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.