Hversu mörg slys þurfa eiginlega að eiga sér stað?

Mikilvægasta hlutverk stjórnmálamanna er að búa borgurunum öruggt umhverfi og lífsskilyrði í samfélaginu ásamt því að vernda líf og limi þeirra. Vissulega er hér um breitt svið að ræða og samfélagið ekki alltaf sammála um hversu langt skuli ganga og hvernig skuli ná þessu markmiði.

Mikilvægasta hlutverk stjórnmálamanna er að búa borgurunum öruggt umhverfi og lífsskilyrði í samfélaginu ásamt því að vernda líf og limi þeirra. Vissulega er hér um breitt svið að ræða og samfélagið ekki alltaf sammála um hversu langt skuli ganga og hvernig skuli ná þessu markmiði. Of oft fer mikilvægur tími í tilgangslaust þras og fjas út af smámunum, sem í engu samræmi eru miðað við efni þess sem deilt er um. En það eru smáu hlutirnar sem skipt geta hvað mestu máli. Hér á eftir fylgir lítil dæmisaga um það þegar kjörnir fulltrúar bregðast sameiginlega þessari mikilvægustu skyldu sinni.

Í maí mánuði árið 1990 varð hörmulegt bílslys á Selfossi. Bifreið með fjórum ungmennum valt ofan í Ölfusá, neðan Tryggvaskála, með þeim afleiðingum að tveir ungir menn létu lífið. Tvær stúlkur björguðust hins vegar giftusamlega út úr bifreiðinni og bárust með beljandi straumnum á grynningar neðan kirkjunnar þar sem þeim var bjargað úr ánni.

Þar sem vegurinn liggur meðfram ánni var ekkert vegrið, svo um leið og ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni var enginn fyrirstaða í veginum sem hindraði för hans út í beljandi fljótið.

Bæjarfélagið var slegið yfir þessum atburði og raddir voru hafðar uppi um af hverju í ósköpunum ekki hefði verið sett vegrið þarna eða stólpar. Niðurstaðan varð sú að steyptir stólpar voru settir upp á þeim stað þar sem bifreiðin fór út af, en ekki annars staðar.

Fyrir skemmstu hafnaði bifreið aftur út í ánni skammt frá slysstaðnum 1990. Ekkert vegrið var til staðar til þess að varna því að bifreiðin lenti út í ánni. Betur fór samt á en horfðist þar sem bifreiðin endaði á grynningum og brugðust björgunarsveitarmenn við og komust að bifreiðinni á slöngubát.

Það er ekki örgrannt um að hægt sé að spyrja sig hvort ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta síðara slys með vegriðum? Hefði slíku fé ekki verið vel varið? Er ekki kominn tími nú til þess að þvergirða akveginn meðfram Ölfusá slíkum vegriðum?

Í sjálfu sér er um dæmigert mál að ræða sem gleymist í amstri daganna og gengur þvert á flokkapólitískar línur. Vegrið sem bjargað getur ótilgreindum mannslífum í framtíðinni á sér væntanlega ekki háværan eða fjölmennan þrýstihóp. Vissulega kostar slík framkvæmd einhver fjárútlát úr bæjarsjóði. En sveitarfélagið Árborg, sem hvað þekktast hefur verið upp á síðkastið fyrir að vera með þrjá bæjarstjóra á launum á sama tíma, ætti að geta fundið einhvers staðar fé til þessara nauðsynlegu framkvæmda. Er því hér með skorað á sveitarstjórnina að bregðast nú við og girða af veginn við Ölfusá neðan byggðar við Selfoss.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.