Af skandinavískum þankagangi

Frá því var greint í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að norski athafnamaðurinn Kjell Inge Røkke væri að sölsa undir sig stórfyrirtækið RGI þar í landi. Aðferð Røkkes við yfirtökuna er um leið útsmogin og fífldjörf, en þó ekki eins frumleg og ætla mætti við fyrstu sýn.

Frá því var greint í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að norski athafnamaðurinn Kjell Inge Røkke væri að sölsa undir sig stórfyrirtækið RGI þar í landi. Aðferð Røkkes við yfirtökuna er um leið útsmogin og fífldjörf, en þó ekki eins frumleg og ætla mætti við fyrstu sýn.

RGI hafði nýlega selt dótturfyrirtæki sitt og átti um 50 milljarða ísl. króna skuldlausar í lausafé eftir söluna. Røkke sló tvö risalán upp á tugi milljarða hjá norskum bönkum í sumar til að kaupa út aðra hluthafa í fyrirtækinu og hefur með því móti eignast yfir 90% hlut. Lánin voru einungis til mjög skamms tíma en að öllum líkindum með mjög háum vöxtum. Þannig hefur verið hvati fyrir bankana að lána Røkke þessar yfirgengilegu fjárhæðir. Vart þarf að taka fram að hefðbundið veð kemur ekki til greina við slíkar risalántökur, heldur er það viðskiptaáætlunin sjálf sem lánstraustið er byggt á.

Innan skamms þarf Røkke að greiða upp þessi lán og hvar skyldi hann fá fjármuni til þess? Á nákvæmlega sama hátt og Óli Kr. Sigurðsson heitinn borgaði bankanum þegar hann keypti Olís: með fjármunum fyrirtækisins sjálfs. Í tilfelli Røkkes notar hann það lausafé sem fyrirtækið hefur undir höndum eftir sölu dótturfyrirtækisins. Røkke hefur þannig eignast eitt stærsta fyrirtæki Noregs, án þess að hafa í raun þurft að leggja til krónu af eigin fé.

Niðurlag fréttar Ríkisútvarpsins var reyndar dapurlegt dæmi um þann smáborgarahátt, sem einkennir viðhorf margra Norðurlandabúa til stórtækra athafnamanna. Sagði fréttamaðurinn, Magnús Þór Hafsteinsson, að fátt virtist nú geta stöðvað Røkke, nema ef vera skyldi norska Stór-þingið. Kjell Inge Røkke er ágætt dæmi um athafnamann, sem hefur efnast stórkostlega á því að taka gríðarlega áhættu og sýna einstæða útsjónarsemi. Það er mjög skandinavískt viðhorf að slika menn verði að stöðva með öllum tiltækum ráðum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.