Þetta máttu ekki gera sýslumaður góður

Hæstiréttur hafnað nú á dögunum beiðni sýslumannsins í Vestmannaeyjum um að tveimur fyrirtækjum yrði gert skylt að afhenda lögreglunni þar lista yfir öll þau símanúmer sem hringt var í og úr á ákveðnum tíma í Vestmanneyjum. Af fréttaflutningi fjölmiðla af málinu má ráða að sérstakt hafi þótt að beiðninni hafi verið hafnað. Það sem er sérstakt er að sérstakt þyki að beiðninni hafi verið hafnað.

Í lögregluríkjum er jafnan lítið um glæpi fyrir utan einn risastóran glæp ríkisins gegn öllum borgurum.

Sýslumanninum í Vestmanneyjum gengur örugglega eitt gott til þegar hann óskar eftir því að fá að rannsaka hundruð ef ekki þúsundir saklausra einstaklinga í Vestmanneyjum. Von stendur væntanlega til þess að þeim slíkum aðgerðum væri hægt að klófesta meintan brennuvarg eða varga sem virðist hafa leikið lausum hala í Heimaey. Það er vonandi að það takist að stöðva viðlíka brjálæðinga sem allra fyrst með öllum mögulegum löglegum ráðum. Hins vegar verður eldurinn ekki slökktur með eldi, ef nota má þá líkingu.

Seint verða höfð uppi of mörg varnarorð um ótækt sé að meiri hagsmunum sé fórnað fyrir minni í viðleitni manni til að koma lögum og refsingu yfir þá sem brjóta reglur samfélagsins. Vísan ætti að vera öllum kunn. Stjórnskráin setur einokun ríkisins á ofbeldi ákveðna skorður og það ekki af ástæðalausu. Réttur manna til að fá að vera friði fyrir áráttu ríkisins til að stjórna og hafa eftirlit með hegðun fólksins er svo mikilvægur að hann verður ekki látin af hendi fyrir minni hagsmuni. Enda mundi slíkt bjóða þeirri hættu heim að ríkisvaldið sæi sér ávallt þann leik á borði við fyrsta tækifæri að ganga enn lengra í að skerða mannréttindi fólks.

Á þessar skynsamlegri varnaðarreglu byggist löggjöfin um rannsókn opinbera mál. Lögreglan hefur ekki heimild til að skerða friðhelgi einkalífs fólks nema fyrir liggi rökstuddur grunur um brot. Aðgerðir lögreglu verða að beinast að ákveðnum aðila eða aðilum en ekki ótilteknum fjölda einstaklinga í von um þar leynast hinir brotlegu. Að auki liggur til grundvallar að heimildum lögreglu til að beita rannsóknarúrræðum eru settar þröngar skorður vegna ákvæða stjórnarskrárinnar. Það að láta nær alla símnotendur í Vestmannaeyjum fá réttarstöðu sakborninga gengur bara ekki og það réttilega að mati Hæstaréttar.

Að sama skapi er það ótækt að einn ökuníðingur geri alla aðra ökumenn að níðingum í umferðinni. Slysaeftirlitskubbar í bíla er því miður leið í þá átt sem og eftirlitsmyndavélar á sem flestum stöðum. Áður en langt um líður kemur fram sú hugmynd að gott væri fyrir samfélagið að hafa myndavélar á öllum heimilum. Því miður virðist ótrúlega mikill fjöldi fólks vera tilbúinn að fórna æ meira af réttindum sínum í þágu umfangmeira eftirlits af hálfu ríksins. Það á ekki einungis við um óljósu kröfu þessa fólks um aukið öryggi heldur einnig á öðrum sviðum, t.a.m. baráttu fyrir betri heilsu, uppeldi barna án foreldra, fjármálum án ábyrgðar o.s.frv. Það á að banna óhollan mat, láta ríkið sjá um uppeldið, banna óskynsamlega notkun peninga. Ef eitthvað á að banna þá er það að banna fólki að þykjast reyna hafa vit á því hvernig aðrir eiga lifa sínu lífi.

Þessu góðhjartaða og umhyggjusama fólki væri nær að reyna aðstoða nú sýslumanninn í Vestmanneyjum við að bægja frá raunverulegri ógn við samfélagið og gefa nú upp vísbendingar, ef það mögulega getur, hvaða vinir, ættingjar eða kunningjar hafa nú verið að leika sér að eyðileggja eigur manna og stofna mannlífum í hættu.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.