Róttæklingur fokkar upp ártali

Liðins árs má eflaust minnast fyrir ýmislegt, en ef menn skortir hugmyndir þá geta þeir minnst þess sem ársins þegar Múrinn klúðraði ártali. Og ekki hvaða ártali sem er. Við erum að tala um ártal í sögu Suður-Ameríku, meintri ljónagryfju íslenskrar vinstribesservisku.

Liðins árs má eflaust minnast fyrir ýmislegt, en ef menn skortir hugmyndir þá geta þeir minnst þess sem ársins þegar Múrinn klúðraði ártali. Og ekki hvaða ártali sem er. Við erum að tala um ártal í sögu Suður-Ameríku, meintri ljónagryfju íslenskrar vinstribesservisku.

„Fallinn er Óli fígúra í Chile“ sagði menntaskólakennari nokkur daginn eftir að einræðisherrann Augusto Pinochet hafði tapað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi völd árið 1989. Nemendur hans fengu frí þann daginn. Pinochet var eitt af mörgum fórnarlömbum þess að járntjaldið féll um þær mundir.[…]” – Sverrir Jakobsson sagnfræðingur í pistli á Múrnum.

Hingað til hef ég talið mig geta treyst auðtjekkanlegum staðreyndum, eins og ártölum eða nöfnum höfuðborga, þegar um skrif róttæklinga um suðurameríska sögu hefur verið að ræða. Ég meina, þegar ástríðan og þráhyggjan á málaflokknum er slík, gerir maður hálfpartinn ráð fyrir því að þekkingin fylgi. En þar sem ég var sjálfur að vinna að pistli um Chile á þessum tíma skoðaði ég málið nánar, og viti menn, Wikipedíur allra tungumála vildu meina að umrædd þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram í október 1988, en ekki árið 1989.

Vissulega gæti hér verið um sakleysislega innsláttarvillu að ræða. Tölurnar 8 og 9 liggja, jú, skammt hvor frá annarri á flestum vestrænum lyklaborðum.

Það er hins vegar verra að Sverrir kýs að nota þessa innsláttarvillu sína til að rökstyðja öfugt orsakasamband milli hruns járntjaldsins og endaloka Pinochets. Staðreyndin er hins vegar sú að kommúnisminn í Austur-Evrópu féll seinni hluta ársins 1989, átta til fjórtán mánuðum eftir sigur lýðræðisaflanna í Chile á fasistahyskinu þar. Vissulega lá ýmislegt í loftinu á þessum tíma, en engan óraði fyrir hve hröð þróunin handan Járntjaldsins mundi verða.

Þegar leiðtogar Samstöðunnar í Póllandi höfðu, vorið 1989, knúið fram hálflýðræðislegar kosningar, lögðu þeir af stað í kosningabaráttuna með von um að hljóta um það bil 5% allra þingsæta. Kommúnistarnir sjálfir óttuðust víst mest að Samstaðan mundi ekki fá neitt einasta þingsæti, því það mundi líta svo illa út á álþjóðavettvangi. Þessa má geta að Lech Walesa og félagar ryksuguðu upp öll þingsætin í Efri deild og náðu öllum þeim 35% sæta í Neðri deild sem þeir höfðu rétt á. Niðurstaðan kom flestu í opna skjöldu, og jafnvel þurfti að breyta kosningalögum fyrir seinni umferð kosninganna því þáverandi löggjöf gerði ekki ráð fyrir slíku bursti og ekki hefði verið hægt að manna öll sæti á þinginu að óbreyttu.

Það er því eflaust fremur svekkjandi fyrir Chilebúa að komast að því að þeir hafi einungis fylgt í kjölfarið á Austur-Evrópuþjóðum og að Pinochet hafi verið fórnarlamb einhvers annars en frelsisþrár sinnar eigin þjóðar. Sérstaklega að þegar kosningin fór fram sátu margar kommúnistastjórnirnar sem fastast og enn var verið að skjóta á fólk sem reyndi að flýja yfir Múrinn.

Það er kannski í takt við þá söguskoðun að allt sem miður fer í Suður-Ameríku sé Könum að kenna, að loksins þegar eitthvað jákvætt gerist þá hljóti það að vera Slövum að þakka. Hver gæti trúað því að Chilebúar gætu gert eitthvað sjálfir?

Allt er í heiminum hverfult. Lengi vel var “hagfræði” efst á lista yfir hluti sem Múrinn gat ekki fjallað um án þess að klúðra einhverju. Það kemur mér verulega á óvart að “saga Suður-Ameríku” skildi nú bætast við þann lista.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.