Bremsulaus fjárlög

Nýsamþykkt fjárlög ársins 2007 hafa vakið nokkra umræðu undanfarna daga. Fjármálaráðherra kunni þó greinilega illa við gagnrýni greiningardeildar KB banka sem þótti fjárlögin sýna nánast algert bremsuleysi af hálfu ríkisins.

Nýsamþykkt fjárlög ársins 2007 hafa vakið nokkra umræðu undanfarna daga. Fjármálaráðherra kunni þó greinilega illa við gagnrýni greiningardeildar KB banka sem þótti fjárlögin sýna nánast algert bremsuleysi af hálfu ríkisins.

Greiningardeild KB banka mat fjárlögin á þann hátt að Seðlabankinn neyddist til þess að hækka stýrivexti um 50 punkta þann 21. desember næstkomandi. Stærstu ástæðurnar eru umtalsverðar skattalækkanir sem fyrirhugaðar eru á næsta ári og aukning útgjalda ríkissjóðs.

Auk þessa fjallaði greiningardeildin um algert bremsuleysi ríksins í fjárfestingum, hvort sem um væri að ræða beina þátttöku eða einkaframkvæmdir. Þrátt fyrir að miklar vegaframkvæmdir séu tvímælalaust til bóta er bent á að tímasetningin sé slæm.

Enn er til staðar mikil verðbólga, launaskrið er töluvert og atvinnuleysi nánast ekkert. Allt eru þetta ótvíræð merki mikillar þenslu í þjóðfélaginu og það verður að teljast ábyrgðarleysi af hálfu ríkisins að ætla í miklar fjárfestingar og skattalækkanir þegar aðstæður eru slíkar.

Þessari gagnrýni greiningardeildar KB banka, sem er að öllu leyti réttmæt og vel þess virði að taka tillit til, vísar fjármálaráðherra til föðurhúsanna ef svo má segja.

Hann kallar tal um 7% verðbólgu vandamál fortíðarinnar. Þar vitnar hann til nýjustu verðbólgumælingar Hagstofunnar sem gefur til kynna nánast enga verðbólgu á ársgrundvelli. Þetta er þó aðeins ein mæling og segir hún lítið um verðbólgu næstu tólf mánaða.

Jafnframt segir fjármálaráðherra fjárlögin miða við ástandið eins og það verði á næsta ári, en ekki eins og það hafi verið á þessu ári. Að endingu tekur hann fram að bankarnir ættu fremur að líta sér nær en að gagnrýna aðra. Verðbólgan sé til komin vegna þess að gengi krónunnar féll á þessu ári vegna þeirra áhyggja sem alþjóðastofnanir höfðu af stöðu íslensku bankanna.

Með fullri virðingu fyrir fjármálaráðherra verður að segjast eins og er að þessa fullyrðingar hans eru í besta falli undarlegar og í versta falli einfaldlega rangar.

Verðbólgan er vissulega enn til staðar, um það er ekki deilt. Sem dæmi hefur Seðlabanki Íslands haldið áfram að hækka stýrivexti, einmitt vegna þess hve mikil verðbólga er enn til staðar í landinu.

Einnig hlýtur að vekja furðu að fjármálaráðherra telji sig vita hvernig efnahagsástandið verður á næsta ári. Hann ætti að senda Seðlabankanum stutta greinargerð um það og þá væri jafnvel hægt að taka ákvarðanir um breytingar á stýrivöxtum eins og ár fram í tímann.

Að síðustu er ótrúlegt að ráðherra sjái ástæðu til þess að setjast í sandkassann og sletta framan í greiningardeild KB banka að verðbólgan sé þeim banka og öðrum að kenna. Þær alþjóðastofnanir sem hann talar um í þessu samhengi eru matsfyrirtækin Moody’s, Standard & Poor’s og Fitch Ratings. Þau höfðu vissulega áhyggjur af stöðu bankanna en fyrst og fremst af stöðu ríkissjóðs og það hefur að líkindum haft mest áhrif á gengi krónunnar. Jafnframt er fásinna að segja að verðbólgan sé eingöngu til komin vegna gengisfalls krónunnar, þar sem ótal aðrir þættir spila inn í.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)