Vegaframkvæmdir dauðans

Lélegar merkingar og lýsingar við vegaframkvæmdir hafa hugsanlega valdið banaslysi. Hvers vegna þarf slíkt að eiga sér stað til að fólk ranki við sér og geri sér grein fyrir augljósum vanda?

Lélegar merkingar og lýsingar við vegaframkvæmdir hafa hugsanlega valdið banaslysi. Hvers vegna þarf slíkt að eiga sér stað til að fólk ranki við sér og geri sér grein fyrir augljósum vanda?

Það fer ekki framhjá íbúum höfuðborgarsvæðisins að miklar vegaframkvæmdir standa yfir víðs vegar um borgina. Lýsingu og merkingum er augljóslega ábótavant og Umferðarstofa fær fjölda ábendinga um slæmt ástand.

Banaslys varð á Reykjanesbraut í fyrradag þegar bíll keyrði á steypustólpa gengt nýju IKEA versluninni í Garðabæ þar sem yfir standa breytingar á gatnakerfi. Ástæðu slyssins má líklega rekja til lélegrar lýsingar og enn verri merkinga á framkvæmdasvæðinu.

Pistlahöfundur hefur sjálfur lent í slæmum aðstæðum vegna vegaframkvæmda og oftar en ekki bölvað í hljóði yfir lélegum merkingum. Allt í einu þarf að snöggbeygja yfir á næstu akrein og fyrr en varir eru steinklumpar framundan og einu merkin um breytingar eru á sjálfum veggnum.

Nú má ekki skilja sem svo að verið sé að mótmæla vegaframkvæmdum. Þær eru mjög þarfar enda umferðarkerfi borgarinnar löngu sprungið. Það verður þó að hafa í huga að við slíkar framkvæmdir þarf bílaumferð að keyra um svæðið. Því þarf góðar merkingar til að koma í veg fyrir slys, áður en það verður um seinan.

Íslendingar eru fljótfærir með eindæmum. Þannig þurfi að koma upp nýrri IKEA verslun og opna á sama tíma og verið var að laga Reykjanesbrautina við Hafnarfjörð. Olli þetta gríðarlegu öngþveiti og nánast daglega myndast löng umferðarröð vegna þessa. Á þessum stað vantar einnig töluvert upp á lýsingu og merkingar.

Er ásættanlegt að það þurfi banaslys til að við áttum okkur á mikilvægi þess að hafa merkingar við vegaframkvæmdir þannig að ekki fari á milli mála hvað sé framundan? Hver ber ábyrgð á því að þetta sé í lagi? Er eitthvað eftirlit með því að farið sé eftir þeim reglum sem um þetta gilda?

Samkvæmt því sem fram hefur komið í fréttum af slysinu í fyrradag bera framkvæmdaraðilar ábyrgð á því að merkingar og lýsing á vinnusvæðum sé í lagi. Einnig hefur Umferðastofa ítrekað bent á að þessu hafi verið ábótavant á því svæði sem slysið varð. Þá vísar Samgönguráðherra ábyrgðinni á verktakann. En hver ber ábyrgð á verktakanum?

Það er ekki til of mikils ætlast þegar óskað er eftir vel merktum og vel lýstum framkvæmdarsvæðum. Sérstaklega þegar ökumenn þurfa að fara um svæðin. Ætla má að þeir sem bera ábyrgð í þessu tilviku vakni upp við vondan draum og geri úrbætur. Það er þó sorglegt að banaslys þurfi til.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.