Litli risinn Google

Frá árinu 1998 hefur bandaríska fyrirtækið Google vaxið úr þriggja manna samstarfi í bílskúr í Kaliforníu í 5.680 manna netfyrirtæki sem býður upp á öflugustu leitarvél í heimi. Leitarvélin er þó langt frá því hið eina sem fyrirtækið hefur upp á bjóða.

Frá árinu 1998 hefur Google vaxið úr þriggja manna samstarfi í bílskúr í Kaliforníu í 5.680 manna netfyrirtæki sem býður upp á öflugustu leitarvél í heimi. Leitarvélin er þó langt frá því hið eina sem fyrirtækið hefur upp á bjóða.

Google var formlega stofnað árið 1998, en upphafsmenn leitarvélarinn, Larry Page og Sergey Brin, hófu þó samstarf nokkru fyrr eða árið 1995. Þegar fyrirtækið var stofnað 1998 var leitarvélin þegar komin upp á slóðinni www.google.com og tók við um 10.000 fyrirspurnum á dag.

Google þurfti fljótlega að færa sig út úr bílskúrnum og fékk skrifstofu á leigu í Palo Alto í Kaliforníu árið 1999. Starfsmenn fyrirtækisins voru orðnir 8 og hafði fjöldinn því næstum þrefaldast á skömmum tíma. Leitarvélin naut sífellt meiri hylli og svaraði á þessum tíma um 500.000 fyrirspurnum á dag.

Líklega er óþarfi að fara nánar yfir þessa ótrúlegu sögu enda þekkja lesendur hvert stefndi. Eins og áður segir starfa nú tæplega 6.000 manns hjá Google og fyrirtækið vex gríðarlega hratt. Fyrirtækið fór á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum í ágúst árið 2004 og voru hlutabréf þess mjög eftirsótt og hafa verið allar götur síðan.

Fyrsta daginn sem opið var fyrir viðskipti með bréfin endaði gengi þeirra í rétt rúmlega 100 dollurum á hlut en hefur hæst farið í tæpa 474 dollara. Það er því óhætt að segja að fjárfesting í Google hafi á þessu tímabili verið frekar skynsamlegur kostur. Markaðsvirði Google er í dag rúmlega 143 milljarðar dollara eða um 9.870 milljarðar króna. Til samanburðar er markaðsvirði Kaupþings banka, stærsta fyrirtækis á Íslandi, um 560 milljarðar.

Fram til þessa hefur Google haft langmestar tekjur sínar af sölu auglýsinga á vefnum. Fyrirtækið býður upp á hagkvæmar leiðir til þess að auglýsa sem byggjast á tenglum sem tengjast efninu sem verið er að skoða hverju sinni. Almennt hafa auglýsingar á netinu aukist mjög hratt undanfarin ár og hefur Google átt stóran þátt í því.

Google hefur átt gríðarlegri velgengni að fagna, bæði hvað varðar leitarvélina sjálfa og auglýsingatekjur. Nú er hins vegar svo komið að þjónusta fyrirtækisins er orðin mun víðfeðmari en nokkru sinni fyrr. Google býður upp á ótal mismunandi hluti, nánast alla ókeypis, sem nálgast má á vef þeirra. Of langt mál væri að telja upp alla þessa hluti hér en þó er vel þessi virði að minnast á það markverðasta.

Ætla má að varla sé til mannsbarn með netaðgang sem ekki hefur Gmail netfang (mail.google.com). Frábær póstþjónusta á netinu með nægu ókeypis gagnaplássi til að endast ævina. Picasa (picasa.google.com) er annað frábært forrit frá Google til þess að halda utan um myndir á tölvum notenda. Það vinnur einnig mjög vel með ókeypis myndasöfnum Google á netinu (picasaweb.google.com). Ótrúlega einfalt að halda utan um allar myndir á tölvunni og birta þær á vefnum til að fleiri geti skoðað.

Líklega er Google Docs (docs.google.com) þó eitt það áhugaverðasta sem er í boði hjá Google. Þarna má skrá sig inn með Gmail netfanginu og búa til Word og Excel skjöl og vinna í þeim að vild. Þau eru svo geymd ókeypis þarna og af því að allt fer fram með vafra (helst Mozilla Firefox) þá eru þau aðengileg hvenær og hvar sem er. Þarna er kominn fyrsti vísir þess að Google ætli raunverulega að keppa við Microsoft. Þess má svo geta að pistill þessi er skrifaður í Google Docs.

Google býður upp á ótal margt annað á borð við Google Earth, Blogger, Talk, Finance, Froogle, Video, Web Accelerator og svo mætti lengi telja. Það er ljóst að Google hefur náð mjög langt á skömmum tíma og ætlar sér að leika aðalhlutverkið í stafrænu lífi okkar í framtíðinni, hvort sem er í leik eða starfi. Hvort úr verður annað Microsoft og Google verður á endanum „vondi kallinn“ skal ósagt látið, en við treystum þó á að svo verði ekki, að minnsta kosti í bili.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)