Maður skaut á mann með einföldu

Ýmislegt markvert hefur átt sér stað undanfarna daga og vikur; prófkjör, hleranir, hvalveiðar og margt fleira skemmtilegt sem náð hefur athygli fjölmiðla. Í þessum pistli verður samt ekki fjallað um hversu frábærar hvalveiðarnar eru fyrir framboð Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Nei, hér verður farið nokkrum orðum um það hvenær maður hefur faglegar forsendur til þess að pissa á annan mann.

Mörkin á milli gjörnings og klósetts geta verið óljós

Einkennilegasta frétt síðustu daga er eflaust frásögn af því þegar að nokkrir nemendur í Listaháskóla Íslands fluttu óvenjulegt verkefni í kennslutíma. Í stuttu máli þá lauk því þannig að einn nemandi pissaði á annan nemanda. Um það er svo sem ekki mikið hægt að segja, hvað þá skrifa um slíkan gjörning heilan pistil. Það væri svona álíka áhugavert og skrifa langa lofræðu um Dieter Roth og hans heillandi saurlistaverk. En það sem var athyglisvert við þessa umfjöllun var að fram kom að hugsanlega hefðu nemendurnir ekki haft faglegar forsendur til að framkvæma svona djarfan gjörning.

Spurningin sem eftir stendur er hvenær hefur maður faglegar forsendur til að pissa á annan mann? Svarið er sennilega jafn óhefðbundið og gjörningurinn sjálfur, ef svarið er þá á annað borð til. Umfjöllunarefnið er nánar tiltekið hvenær það er boðlegt að ögra hefðbundnum gildum og siðferðisviðmiðunum í samfélaginu eftir skilgreindum faglegum mælikvörðum. Það er ekki laust við að Listaháskólinn sé að glíma við eina af erfiðustu spurningum samfélagsins um hvað sé rétt og rangt og hvernig hægt er að gera rangan hlut réttan sem lengi sem viðhöfð eru fagleg vinnubrögð.

Gildi fólks eru margs konar enda menn misjafnir og hafa mismunandi skoðanir og smekk. Erfitt er að leggja hlutlægt eða vísindalegt mat á hvaða siðferðisgildi eru rétt eða hvaða siðferðisviðmiðanir eiga að ráða ríkjum. Ástæðan er sú að enginn einn getur lagt dóm á hvað öðrum eigi að finnast. Þannig er ómögulegt að einhver einn ráðandi siðgæðisvörður geti vitað af öllum þeim forsendum sem eru á bakvið lífskoðanir annarra einstaklinga. Ef slíkur siðgæðisvörður væri til þá starfaði hann að öllum líkindum sem einræðisherra og hefði gaman af því að kúga annað fólk.

Nú er ekki verið að halda því fram að ekki sé hægt að henda reiður á viðurkennd siðferðisgildi og viðmiðanir í samfélagi manna eins og hér á Íslandi. Flestir gera það og fara eftir þeim af einhverjum ástæðum. Samfélagið, og þau gildi sem eru ráðandi hverju sinni, mótast af einstaklingum og samskiptum milli þeirra. Samræður, tjáning, listir, rifrildi og átök eru allt þættir sem marka ákveðin siðferðisgildi. Punkturinn með þessari langloku er að það er ekkert faglegt við þetta. Það er enginn sem kokkar allt í einu upp á faglegum forsendum þá algildu reglu að það sé ótækt að pissa á annan mann, hvað þá að hægt sé að gera slíkt á einhverjum ímynduðum faglegum forsendum.

Tveir einstaklingar geta vel ákveðið að pissa á hvorn annan, til skemmtunar eða fróðleiks. Aðrir í kringum þá gætu mögulega orðið óhressir af því slíkt myndi trufla þá, finnast það ógeðslegt, ótækt eða hvaðeina. Slík samskipti milli manna og hópa eru eðlileg og af þeim hafa sprottið lög sem banna mönnum að ganga á hlut annarra. Það sem má ekki gerast er að einhverjir grípi til þess ráðs að banna það með lögum sem þeim finnst vera ógeðslegt eða viðkvæmt. Nú eða setja faglegar viðmiðanir hverjir geta og hvenær ögrað gildum á „réttan“ hátt. Það er óþolandi forsjárhyggja.

Lærdómurinn af þessu skemmtilega verkefni nemendanna í Listaháskólanum er sá að eðlilegast er að hver og einn hafi frelsi til athafna sem takmarkast eingöngu við að ganga ekki á hlut annarra. Krafan um faglega forsendur eða fámennan hóp sérfræðinga, sem stjórna hvað eigi að viðgangast, er ótæk því slíkt felur í sér ritskoðun og skoðanakúgun. Þannig á að fordæma þann sem skýtur með tvöföldu á indíána í Ameríku en það er hið besta mál að skjóta á forsjárhyggjuskítapakk með einföldu.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.