Hversdagshetja deyr!

Á vefriti sem þessu-þar sem greinarkorn þetta birtist-er iðulega kappkostað að greina frá því sem hæst ber í samfélaginu á hverjum tíma og þeim þjóðþrifamálum sem nauðsynlegt og þarft er að kryfja á hverjum tíma. Hinnar stóru myndar er leitað og stöðu okkar í dag og hvert við eigum að stefna og hvernig við eigum að haga stefnu okkar í framtíðinni. Dregin er meðal annars upp mynd af stjórnmálamönnum og framamönnum í viðskiptalífinu og þeim sem áberandi eru í umræðunni á hverjum tíma og fjallað um verk þeirra með einum eða öðrum hætti til lofs eða lasts.

Á vefriti sem þessu-þar sem greinarkorn þetta birtist-er iðulega kappkostað að greina frá því sem hæst ber í samfélaginu á hverjum tíma og þeim þjóðþrifamálum sem nauðsynlegt og þarft er að kryfja á hverjum tíma. Hinnar stóru myndar er leitað og stöðu okkar í dag og hvert við eigum að stefna og hvernig við eigum að haga stefnu okkar í framtíðinni. Dregin er meðal annars upp mynd af stjórnmálamönnum og framamönnum í viðskiptalífinu og þeim sem áberandi eru í umræðunni á hverjum tíma og fjallað um verk þeirra með einum eða öðrum hætti til lofs eða lasts.

Sjaldnar er hins vegar staldrað við og litið til þess sem minna ber jafnan á í samfélaginu og því sem fram fer án þess að því sé sérstaklega gaumur gefinn, eða til þess fjölda sem starfa við það að hlúa og næra rætur samfélagsins og stoðir þess með einum eða örðum hætti. Hafa þessar persónur verið kallaðar hversdagshetjur-væntanlega í þeim tilgangi að skilja hafrana frá sauðunum og þá sem drýgja það sem samfélagið telur vera raunverulegar hetjudáðir frá öðrum sem ekki eru í raun og veru raunverulegar. Fær hugtakið hversdagshetja nokkuð aðra og meira auðmýkjandi merkingu í þessu samhengi. Verður hins vegar ekki staldrað við að skilgreina hetjudáðir frekar hér í þessum orðum eða hverjir eiga að teljast hetjur.

Það sem hér fylgir á eftir er tilraun þess sem hér skrifar til þess að skýra frá starfi einnar slíkrar hversdagshetju, Margrétar Blöndal geðhjúkrunarfræðings sem andaðist í Reykjavík 9. apríl síðastliðinn á 67.aldursári.

Margrét Blöndal starfaði lengst af við umönnun geðsjúkra, og starfaði bæði sjálfstætt með ráðgjöf við eigin-en lengst af á geðdeild A2 á Borgarspítalanum. Á þeirri deild starfaði greinarhöfundur um hálfs árs skeið og var þá svo lánsamur að fá að kynnast þessari merku konu og þeirri hugmyndafræði sem hún aðhylltist og fylgdi í hvívetna. Hún aðhylltist manngildi og mannúð um fram allt annað. Hún var hreinskilin-of hreinskilin fyrir marga sérfræðinga-og nösk á að finna veika bletti hjá viðmælendum sínum. Einkum og sér í lagi var hún góð í að hrekja þá á flótta sem byggðu viðhorf sín á yfirborðskenndum skoðunum innan einhverrar fræðigreinar eða á hreinni og klárri vanþekkingu eða heimsku.

Nútíminn virðist vera heltekinn af síaukinni sérhæfingu og meiri sérhæfingu án þess að markmið sérhæfingarinnar virðist vera annað og meira heldur en sérhæfingin sjálf-og hefur pistlahöfundur minnst á þetta nokkrum sinnum áður. Gætir þessa sérstaklega í greinum félagsfræðinnar. Skólakerfið er upptekið af fjölgreindarkenningu og einstaklingsmiðuðu námi og þörf kennara til þess að sérhæfa sig i slíku. Ekki má gleyma umfjöllun um gæðastjórnun sem samfélagið fagnar álíka eins og kröfunni um sérhæfingu án þess að skilgreina nánar græði eða að hverju er stefnt. Í hjúkrunarfræði hefur verið reynt að innleiða einstaklingsmiðaðar hjúkrunargreiningar sem hafa það að markmiði að finna út einstaklingsbundnar þarfir sjúklings við athafnir daglegs lífs-eða það sem á mannamáli myndi kallast hvað viðkomandi þarfnast.

Meðan aðrir voru uppteknir að greina þarfir sjúklinga eftir sérstökum greiningarlyklum og skrá athafnir sjúklinga í sjúkraskrá vaktarinnar blés Margrét á slíkt og taldi það vera óþarfa. Eyddi hún þess í stað tíma með sjúklingum og hughreysti þá og hvatti eða skammaði eftir því sem hún taldi eiga best við á hverjum tíma. Var næstum því fráhverf pappírsvinu og reyndi að fela öðrum að ganga frá innlagnarpappírum sjúklinga á sínum vöktum. Þeir sem aðhylltust hugmyndir um aukið gæðaeftirlit og aukna skrásetningu skrifaði hún ekki hátt og tortryggði. Bestu aðferð í gæðastjórnun, gæðaeftirliti og sérhæfingu taldi hún vera að ræða við hvern og einn sjúkling og reyna að þekkja hann. Kanna sjúkdómseinkenni og tala umbúðalaust við viðkomandi og hlusta án þess að fordæma eða vega orð eða hegðun fólks á samræmda vog æskilegrar hegðunar í samfélaginu. Forðast það eins og heitan eldinn að setja stimpil á viðkomandi eða fræðiheiti án þess að reyna að skilja hvað á baki því bjó.

Ofreglingur er annað einkenni samfélagsins og helst í hendur við aukna gæðastjórnun og sérhæfingu. Reglugerðum hins opinberra fjölgar í sífellu og einkageirinn fjölgar einnig reglum í starfsemi sinni annað hvort samkvæmt fyrirmælum í lögum, eða af eigin hvötum til þess að auka framleiðni starfsmanna. Reglur eru jú nauðsynlegar til þess að við getum búið í samfélagi, en ofreglingur dregur meðal annars úr getu samfélagsins til þess að virka eðlilega. Einkum á þetta við fastmótaðar reglur sem draga úr getu þess sem beitir þeim til þess að beita almennri skynsemi að bestu vitund. Til þess að forðast misskilning er hér ekki átt við refsilög eða stjórnskipunarlög, heldur verklagsreglur sem skikka menn til ákveðinnar hegðunar í daglegu lífi.

Slíkum reglum var Margrét alfarið á móti og sýndi það jafnan í verki. Þegar aðrir lögðu sig í líma við að finna upp mörk og markasetningu til þess að koma sjúklingum til heilsu-taldi Margrét að ekki ætti að trúa slíkum kennisetningum og fylgja þeim í blindni. Betra væri að efast stundum, treysta aðeins á innsæið og komast yfir hverja raun fyrir sig og miða við hvern sjúkling fyrir sig. Hún braut reglur án þess að hika við það-teldi hún að þær ættu ekki við í því tilviki eða væru þær heimskulegar, en án þess að hvika frá grunnreglunni um virðingu fyrir manneskjunni og trúnað við hana. Enda sýndi það sig best að sjúklingar treystu Margréti betur en öðrum og árangur hennar var iðulega meiri og betri heldur en sérhæfðum heilbirgðisstarfsmönnum öðrum var unnt að sýna fram á.

Af Margréti stafaði ljómi og karismi sem olli því að menn treystu henni og brást hún ekki því trausti. Hún var hávaxin og grönn og gekk jafnan upp með dökkt sítt hárið í hnút á höfðinu. Fáir hafa haft jafn mikil áhrif á mig eins og Margrét Blöndal hafði á sínum tíma, enda var hún háskóli í sjálfri sér og samtal með henni kenndi meira í gagnrýnni hugsun heldur en margir hafa barið í höfuð sér í heilu háskólanámi. En persónur eins og Margrét var eru fátíðar og virðast vera að hverfa ein af annarri úr hinu sérhæfða gæðastjórnunarsamfélagi.

Í upphafi greinarinnar var rætt um hverjir ættu að skilgreinast sem hetjur og hvað væru raunverulegar hetjudáðir. Í huga undirritaðs verðskuldar minning Margrétar Blöndal og þær hetjudáðir sem hún drýgði á starfsferli sínum-og er það ástæða þessarar greinar ásamt þakkarskuld þeirri sem samfélag á við svona konu að gjalda- meiri umfjöllun og meira hrós heldur en samanlagður tólf ára ferill þingmanns. Og það þrátt fyrir að hann hafi sagt þrjúhundruð sinnum já við lagafrumvarpi, fimm sinnum nei og hafi sex sinnum gert grein fyrir atkvæði sínu, setið í þingnefndum, mætt samviskusamlega á sérhvern nefndarfund. og fengið stöku sinum viðtal við sig í fjölmiðlum um lítilfenglegt dægurmálaþras sem gleymdist flestum þegar viðtalinu var lokið.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.