#$&!!!/#$!/#$&! í íþróttum

Þetta sumarið hefur kjaftbrúk og orðaforði íslenskra knattspyrnumanna verið töluvert til umfjöllunar. Tvö atvik hafa verið þar sérstaklega í umræðunni. Það er hins vegar ekki svo að knattspyrnumenn landsins, né stuðningsmenn liðana hafi fengið málið fyrst í sumar.

Umræða um ljótan orðaforða íslenskra knattspyrnumanna og stuðningsmanna liða þeirra hófst í kjölfarið á því að nokkrir meintir stuðningsmenn karlaliðs FH í fótbolta hrópuðu ókvæðisorð að þeldökkum leikmanni ÍBV meðan á leik félaganna stóð. Í kjölfarið brást m.a. stjórn FH við ummælunum og greip til aðgerða.

Það er sjálfsagt, og þarfaverk, að reyna að sporna við kynþáttafordómum, ekki bara á íþróttavöllum landsins heldur einnig almennt í þjóðfélaginu. Að því leyti var ánægjulegt að sjá hversu sterkt knattspyrnuforystan og fjölmiðlar brugðust við þessu atviki.

Stuttu síðar komust í hámæli orðaskipti sem urðu milli tveggja leikmanna ÍA og Keflavíkur í bikarleik liðanna. Í því tilfelli virðist sem orðaskiptin hafi verið hluti af baráttu þessara tveggja einstaklinga inni á vellinum. Eftir rannsókn Knattspyrnusambandins á málsatvikum, þar sem leikmennirnir tveir voru m.a. kallaðir til yfirheyrslu, var leikmaður ÍA dæmdur í tveggja leikja bann en leikmaður Keflavíkur í eins leiks bann.

Það eru fyrst og fremst tvenns konar spurningar sem vakna í kjölfarið. Annars vegar sú, hvers vegna þessir leikmenn voru dæmdir í bann eftir á, þegar dómari leiksins hafði ekkert haft af atvikinu að segja og einnig hvers vegna leikbann þeirra var mislangt. Leikmaður ÍA kaus að tjá sig um málið opinberlega og viðurkenna sinn þátt á meðan leikmaður Keflavíkur kaus að tjá sig ekki. Hvort það hefur haft áhrif á dóminn skal ekki fullyrt, en óneitanlega veltir maður því fyrir sér, sérstaklega þar sem ekki fylgdi dóminum neinn rökstuðningur fyrir því hvers vegna bönn leikmannanna voru mislöng.

Hins vegar vaknar sú spurning hvernig knattspyrnuforystan hyggst fylgja þessum málum eftir. Nú er það löngu vitað að alls kyns orðaskipti, háðsglósur og jafnvel svívirðingar þjóta manna á milli meðan á íþróttaleikjum stendur. Er þá ónefnt allt það sem flýgur úr börkum áhorfenda og annarra utan vallar. Ef markmiðið er að fara að feta það einstigi að dæma menn í bann fyrir það sem þeir segja við hvorn annan inni á vellinum, byggt á huglægum kvörðum um hversu alvarleg ummælin eru, þá er hætta á því að menn finni fljótlega í aðstæðum sem erfitt er að ná tökum á.

Flestir, nema e.t.v. þeir sem láta slík ummæli falla, geta sennilega verið sammála um að kynþáttafordómar eru meðal þess sem sérstaklega þarf að reyna að sporna við. Almenn blótsyrði, fúkyrði og kjaftbrúk eru hins vegar svo algeng og í raun hluti af leiknum, hversu illa sem menn sætta sig við þau og hversu hvimleið sem þau eru, að nánast útilokað er að útrýma þeim.

Sjálfsagt mál er, eins og hér hefur komið fram, að beina spjótunum sérstaklega að ákveðinni tegund munnlegara svívirðinga eins og kynþáttafordómum. Að öðru leyti er ágætt að hafa í huga nokkuð sem þrautreyndur handknattleiksdómari benti einu sinni á; það er óþarfi að refsa fyrir það sem heyrist bara inni á vellinum, en berst ekki til áhorfenda.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)