Vélað í Venesúela

Atburðarásin í Venesúela um síðustu helgi var lygasögu líkust. Eftir fjöldamótmæli og mannfall meðal mótmælenda í miðborg Caracas, höfuðborgar Venesúela, voru kjöraðstæður fyrir hina gamla og „góða“ mið- og suður-ameríska sið: að herinn ræni völdum. Vinstrisinnaður forseti landsins var hrakinn frá völdum og við tók herforingi sem lofaði lýðræðislegum kosningum og umfram allt röð og reglu.

Atburðarásin í Venesúela um síðustu helgi var lygasögu líkust. Eftir fjöldamótmæli og mannfall meðal mótmælenda í miðborg Caracas, höfuðborgar Venesúela, voru kjöraðstæður fyrir hina gamla og „góða“ mið- og suður-ameríska sið: að herinn ræni völdum. Vinstrisinnaður forseti landsins var hrakinn frá völdum og við tók herforingi sem lofaði lýðræðislegum kosningum og umfram allt röð og reglu.

Forsetinn vinstrisinnaði, Hugo Chaves, var kjörinn í lýðræðislegum kosningum, þótt hann hafi sem ungur maður daðrað örlítið við valdarán, en það er líklega bara hluti af því að fullorðnast á þessum slóðum.

Framverðir lýðræðis á Vesturhveli, og reyndar í heiminum öllum, Bandaríkjamenn höfðu þó ekki mikla samúð með hinum fráhrakta lýðræðislega kjörna forseta. Þvert á móti lýstu talsmenn Bush-stjórnarinnar ánægju með valdatöku hersins.

Sú stuðningsyfirlýsing hafði þó reyndar ekki tilætluð áhrif á almenning í Venesúela, sem áttaði sig á því í þynnkunni á sunnudegi að valdataumar þjóðfélagsins voru í höndum hersins – allt í hers höndum. Því var nú skundað á ný niður í miðbæ Caracas og að þessu sinni til að koma Chaves aftur inn í forsetahöllina. Tvær alþýðubyltingar á einni helgi eru auðvitað afrek út af fyrir sig.

En burtséð frá stemmningu sem slíku fylgir, þá hljóta spurningar að vakna um trúverðugleika Bandaríkjamanna á opinberum vettvangi, einkum og sér í lagi eftir að Washington viðurkenndi að erindrekar Bandaríkjastjórnar hefðu átt fund með vandaránsmönnunum í aðdraganda valdaránsins.

Richard Nixon átti að hafa sagt um herforingjann Ágúst Pinochet: „Of course he’s a son of bitch – but he’s our son of a bitch“. Einhvern veginn hélt maður að þetta hugarfar hefði farið undir græna torfu með kalda stríðinu, hvort sem það var réttlætanlegt á þeim tíma eða ekki.

Það er hálf hjákátlegt að á sama tíma og Colin Powell þeysist um víðan völl að koma á framfæri boðskap um samstöðu gegn illum öflum heimsins, andvestrænum og andlýðræðislegum öflum, þá leggi Bandaríkjastjórn blessun sína yfir nakið valdarán í einu elsta lýðræðisríki rómönsku Ameríku. Eru menn enn að berjast gegn heimsyfirráðum kommúnista? Hefur rykið verið dustað af domino-kenningunni eftir að Cheney og Rumsfeld komust í bókasafn Hvíta Hússins á ný?

En hugsanlega býr fleira að baki valdaráninu og stuðningi Bush-stjórnainnar en við fyrstu sýn kann að virðast. Ástæða þess að almenninur mótmælti í fyrstu á götum Caracas voru umdeildar skipanir Hugo Chaves í stjórn ríkisolíufyrirtækis landsins, en Venesúela er eitt mesta olíuframleiðsluríki Ameríku.

Eitt af fyrstu (fáum) verkum herforingjastjórnarinnar var að loka á útflutning hráolíu til Fídels Kastrós á Kúbu. Og það var bara byrjunin. Chaves hafði verið ákafur talsmaður þess innan OPEC-samtakanna að draga úr olíuframleiðslu til að hækka verð á olíu. Bandaríkjamenn hafa mjög haft horn í síðu þessarar stefnu OPEC-ríkjanna og með „sína menn“ í forsetahöllinni í Caracas hefðu Bandaríkjamenn hugsanlega getað rekið fleyg í þessa sjaldgæfu samstöðu OPEC-ríkja.

En það gekk ekki eftir og nú þegar Bush-stjórnin hefur rekist á vegg hvað varðar olíuborun á svokölluðum friðlýstum svæðum í Alaska, þá eru olíumálin að taka við af baráttunni gegn hryðjuverkamönnum sem brýnasta úrlausnarefni stjórnarinnar.

Þótt Bush njóti enn mikils stuðnings í Bandaríkjunum, þá hefur utanríkisstefna stjórnar hans beðið mikinn hnekki undanfarnar vikur. Stuðningur við valdarán herforingja er ekki það sem framverðir lýðræðis í heiminum geta borið á borð fyrir bandamenn sína.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.