Um ástæður aukins launamunar

Umræðan um launaþróun hérlendis hefur undanfarið fjallað að mestu leyti um þá fáu sem hæstar hafa tekjurnar. Síðastliðinn föstudag fjallaði Fréttablaðið um þessa þróun á almennari hátt með því að skoða launadreifinguna í heild og fjalla um breytingar á Gini-stuðlinum sem notaður er til að lýsa umfangi launamunar.

Umræðan um launaþróun hérlendis hefur undanfarið fjallað að mestu leyti um þá fáu sem hæstar hafa tekjurnar. Síðastliðinn föstudag fjallaði Fréttablaðið um þessa þróun á almennari hátt með því að skoða launadreifinguna í heild og fjalla um breytingar á Gini-stuðlinum sem notaður er til að lýsa umfangi launamunar.

Gini-stuðullinn er tala milli 0 og 100 þannig að ef allir hefðu sömu laun væri stuðullinn 0 en ef einn aðili fengi allar launatekjur í landinu væri stuðullinn 100. Samkvæmt greininni hefur þessi stuðull fyrir Ísland hækkað frá 26 (22 eftir bætur) í 38 (36 eftir bætur) milli 1996 og 2005.

Í Bandaríkjunum hefur sama þróun átt sér stað en þar hefur þessi stuðull hækkað frá 39 árið 1970 í 46 árið 2000. Fræðimenn í Bandaríkjunum hafa sett fram ýmsar kenningar fyrir því af hverju þessi þróun eigi sér stað. Margir hafa nefnt að lítið menntað vinnufólk sem flytji til landsins ásamt þrýstingi frá ódýrri framleiðslu í fátækari löndum haldi launum Bandaríkjamanna með svipað litla menntun niðri. Flestir eru þó á því að þessi áhrif séu ekki mjög mikil og í raun skýri lítinn hluta af auknum launamun.

Annað sem nefnt hefur verið sem áhrifavaldur er tækniframþróun og þá sérstaklega aukin notkun á tölvu- og upplýsingatækni. Margir sitja nú við tölvur stærsta hluta vinnudagsins en þær hafa gert fólki kleyft að margfalda framleiðni sína. Þessi framleiðniaukning er lykillinn að hækkun launa fyrir slíka starfsmenn. Framleiðniaukning hefur orðið mun minni í láglaunastörfum — s.s. verkamannavinnu og afgreiðslustörfum — og því hafa laun fyrir þau störf staðið í stað eða hækkað mun hægar.

Það fer eftir viðhorfum hvers og eins hvort sá launamunur sem er staðreynd hérlendis (þ.e. almennt, ekki bara milli bankastjóra og afgreiðslufólks) gefi tilefni til aðgerða eða ekki. Auk þess hefur á sama tíma orðið mikil kaupmáttaraukning (yfir 35%) þannig að líklegt er að flestir ef ekki allir hópar hafa það betur nú en fyrir 10 árum síðan. En ef við gefum okkur að æskilegt sé að vinna gegn auknum launamun, hvað mætti gera?

Fara þarf varlega í að nota skattkerfið um of í þessum tilgangi svo hvötum til hagvaxtar sé ekki fórnað. Að loka landinu algjörlega fyrir erlendu vinnuafli eða berjast gegn heimsvæðingu með höftum og tollum eru heldur ekki vænlegir kostir.

Í rauninni er ekki létt að finna leiðir til að sporna við þessari þróun á uppbyggilegan hátt. Sennilega er besta stefnan aukin áhersla á menntun. Með því að sem flestir njóti menntunar, hvort sem það er starfs- eða bókmenntun þá hækkar framleiðni starfsmanna sem leiðir beint til hærri launa. Slíkt kæmi sér betur fyrir alla, og þá sérstaklega starfsmennina sjálfa, heldur en einhvers konar launatilfæring í gegn um skattkerfi eða verndarstefnu.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)