Tvær „misvísur“

Að segja eitt og gera annað er ekki vænlegt til að auka trúverðugleika. Þessi pistill veltir upp tveimur slíkum dæmum.


Hvort sem verið er að hvetja hóp fólks til samhents átaks eða framfylgja lögum og reglum er mikilvægast af öllu að samkvæmni sé í þeim skilaboðum sem send eru út til þeirra sem verið er að hafa áhrif á. Undirritaður hefur á undanförnum vikum orðið var við tvo einkennileg, en þó gjörólík, dæmi sem ganga í berhögg við þetta, þar sem misvísandi upplýsingar hafa verið sendar út. Orðið “misvísa” vísar hér til þess þegar orð og athafnir senda mísvísandi skilaboð til almennings.

Misvísa #1
Upp á síðkastið hefur umræðan í þjóðfélaginu meira og minna snúist um efnahagsástand landsins, fjöruga verðbólgu og aðgerðir til að ná tökum á henni. Niðurskurður og/eða frestanir á framkvæmdum, samningar milli aðila vinnumarkaðarins og hækkun stýrivaxta eru meðal þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í því augnamiði að slá á verðbólguna. Ein aðgerðin sem ríkisvaldið greip til snérist um að lækka hámarkslán og lánshlutfall fasteignalána hjá Íbúðalánasjóði. Pistlahöfundi fannst því einkennilegt að á sama tíma og þessir breytingar á lánakerfi Íbúðalánasjóðs voru gerðar, auglýsti sjóðurinn lán sín sem aldrei fyrr í sjónvarpi. Sú spurning vaknaði því óneitanlega hvort skilaboðin um aðhald í lánastefnu hafi ekki skilað sér til stjórnenda sjóðsins. Auglýsingar sem þessar geta ekki verið túlkuðar á annan hátt en sem hvatning til neyslu.

Misvísa #2
Umferðarmál hafa löngum verið undirrituðum hugleikin og umræðan um þau mál nær vanalega hámarki í þjóðfélaginu á sumrin. Ástand vega, tengivagnar, þungaflutningar og hraðakstur eru hvað mest í deiglunni í þessum málaflokki ásamt umferðaslysum. Upp á síðkastið hefur verið í gangi átak hjá lögregluembættum landsins til að sporna við hraðakstri. Áberandi fréttir um ökuleyfissviptingar birtast nær daglega í fjölmiðlum og eru án efa afrakstur þessa átaks sem og samvinnu lögreglunnar og fjölmiðla til að vekja athygli á þeim vágesti sem hraðakstur er. Lögreglan á Blönduósi hefur löngum verið í farabroddi við hraðamælingar og veitingu hraðasekta og er fyrir löngu orðin þjóðþekkt fyrir framgang sinn í þeim efnum.

Fyrir nokkrum vikum var útvarpsstöð nokkur stödd á Blönduósi með síðdegisþátt sinn og tók af því tilefni lögreglumann úr Blönduóslögreglunni í viðtal. Í viðtalinu spurði útvarpsmaðurinn lögreglumanninn meðal annars, eftir að hafa hnykkt á því hversu þekkt staðarlögreglan væri fyrir áðurnefnd afrek, á hvaða hraða þeir byrjuðu að sekta menn. Var það 91km/klst eða jafnvel 92 km/klst? Nei, það stóð ekki á svari, “við byrjum í svona 105 km/klst” var svarið. Flestir vita að hámarkshraði á Íslandi er 90 km/klst, en þarna var lögreglumaðurinn í raun að gefa það út opinberlega að þeir sem keyrðu á undir 105 km/klst þyrftu ekki að hafa áhyggjur, svo framarlega sem aðstæður væru góðar. Ekki nóg með það heldur, a.m.k. að mati undirritaðs, gerði viðkomandi lögreglumaður þarna góða tilraun til þess að þurrka út það orðspor sem fer af Blönduóslögreglunni. Það er nú einu sinni svo að slíkt orðspor þjónar þeim tilgangi að halda hraða í umdæminu niðri og þar með minnka slysahættu. Það er því hálf klaufalegt þegar fulltrúi lögreglunnar gefur út slíkar yfirlýsingar, eða upplýsingar, upp á sitt einsdæmi.

Ef til vill er rétt að vona að sem fæstir hafi heyrt áðurnefnt viðtal og jafnvel einnig að sem fæstir lesi þennan pistil.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)