Löggjafarvaldið vs. framkvæmavaldið

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði leiðara sl. mánudag um virkni kjósenda á Íslandi og hverju þeir eigi að ráða. Inni á milli almennra athugasemda um málefnið sagði ritstjórinn að kjósendur hafi aðeins óbein áhrif á hverjir sitji í ríkisstjórn vegna þingræðisreglunnar. Var botninn sleginn úr þeirri umræðu með því að gefa í skyn að vert væri að skoða hvernig kjósendur geti haft bein áhrif á skipan framkvæmdarvaldsins án þess að afnema þingræðisregluna. Þetta eru nokkuð athyglisverð ummæli frá fyrrverandi forsætisráðherra og væri skemmtilegt ef ritstjórinn gæti útskýrt þessar stjórnskipunarhugleiðingar sínar betur.

Stundum er eins og framkvæmdavaldið fari bakdyramegin inn í löggjafarhúsið

Þingræðisreglan er stjórnskipunarvenja sem felur það í sér að meirihluti Alþingis hefur síðasta orðið um það hverjir skipa stóla ríkisstjórnarinnar. M.ö.o. getur ríkisstjórn ekki verið við völd nema meirihluti þingsins sé því fylgjandi, allavega ekki andsnúinn ríkisstjórninni. Þessi rótgróna venja hefur eðlilega leitt til þess að það er í raun þingheimur sem velur hverjir fara með ríkisstjórn. Hvernig þingmenn komast að niðurstöðu um skipan ríkisstjórnarinnar er svo annað mál, það breytir engu um inntak þingræðisreglunnar hvort þingflokkar meirihluta þingmanna kjósa á milli manna eða forystumenn stjórnmálaflokka semja um ákveðna menn. Niðurstaðan er alltaf sú að meirihluti þingmanna verður að gefa ríkisstjórninni grænt ljós til framkvæmda.

Þá aftur að orðum ritstjórans. Inntak leiðarans var hvernig kjósendur geta haft meiri áhrif á hverjir veljast til stjórnunarstarfa hjá hinu opinbera. Ef málið er borið saman við rekstur fyrirtækja þá er ríkisstjórnin eins framkvæmdastjóri á vegum stjórnar, þ.e. Alþings. Kjósendur eru hluthafarnir. Innan fyrirtækja eru það stjórnin í krafti umboðs frá hluthöfum sem markar stefnuna og taka meiriháttar ákvarðanir, framkvæmdastjóra ber að framfylgja stefnu þeirri sem mörkuð er og sjá um daglegan rekstur. Samspil Alþingis og ríkisstjórnar er ekki ósvipað. Það er löggjafans að setja lögin og framkvæmdavaldsins að framfylgja þeim en ekki öfugt. Munurinn þarna á milli er töluverður.

Ein meginregla stjórnsýslunnar er lögmætisreglan sem í stuttu máli kveður á um að framkvæmdavaldið getur ekki gert neitt nema til þess sé heimild í lögum. Stefnumörkun og hugmyndafræðin birtist í þeim lögum sem sett eru. Kjósendur kjósa þingmenn og það er þeirra að sjá til þess að stefnu þeirri og hugmyndafræði sem meirihluti kjósenda valdi sé framfylgt. Ríkisstjórninni ber einungis að fara eftir þeirri stefnu. Ástæðan fyrir því að ekki hefur verið talin þörf á því að kjósendur hafi bein áhrif á hverjir skipi ríkisstjórn er einmitt sú að hið raunverulega ríkisvald á að liggja hjá Alþingi þar sem kjósendur velja beint sína fulltrúa. Í orðum Þorsteins Pálsonar getur falist sú skoðun að ríkisstjórnin sé það áhrifamikil innan stjórnkerfisins að nauðsynlegt er að bregðast við og leiðrétta meintan lýðræðishalla, ef svo má að orði komast.

Nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn og aðrir hafa stökum sinnum haldið því fram að áhrif ríkisstjórnar á þingstörf séu meiri en góðu hófi gegnir. Ef horft er framhjá því að slík ummæli eru iðulegt sett fram vegna andstöðu við stefnu stjórnarflokkanna, þá leynist í þeim ákveðið sannleikskorn. Í fyrsta lagi eru um fimmtungur þingmanna ráðherrar. Í öðru lagi eru flest ef ekki öll frumvörp sem verða að lögum samin í ráðneytum og af nefndum á vegum ríkisstjórnarinnar. Í þriðja lagi er stefna stjórnarflokkanna að jafnaði mótuð á grundvelli samstarfs innan ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórninni falið að koma henni á framfæri innan þingsins. Í fjórða lagi verða nær öll lagafrumvörp á vegum ríkisstjórnarinnar að lögum en fátítt er að frumvörp þingmanna fái afgreiðslu.

Nokkuð einfalt er að færa framkvæmd lagasetningar í eðlilegt horf án þess að grípa til þeirra aðgerða að breyta inntaki þingræðisreglunnar. Þannig mætti hugsa sér að þeir þingmenn sem veljast í embætti ráðherra segðu af sér þingmennsku á sama tíma og varamaður kæmi í þeirra stað. Þannig yrðu hefðbundnir þingmenn ávallt 63. Ráðherrar ríkisstjórnar hefðu þá einungis málfrelsi á Alþingi en ekki atkvæðisrétt eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Tímabært væri jafnframt að setja ströng hæfisskilyrði til þess að gegna stöðu ráðherra enda fyrst og fremst um að ræða stjórnunarstöðu. Annað sem hægt væri að gera til að skilja betur á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds er að færa frumvarpssmíði ráðuneytanna og embættismannanna til nefndarsviðs Alþingis. Þannig væri leitast við að frumkvæðið að lagasetningu væri hjá þingmönnum og þeirra þingflokkum en ekki hjá embættismönnum. Stefna ætti svo að því markmiði að fækka lagasetningum en gæta að því í staðin að löggjöfin sé vönduð, skýr og almenn.

Skilboðin til ritstjóra Fréttablaðsins eru því þau að í stað þess að kanna leiðir til þess að láta kjósendur hafa bein áhrif á skipan ríkisstjórnar er einfaldara og skynsamlegra að draga úr áhrif framkvæmdavaldsins á löggjafarvaldið. Það er hin eðlilega lausn og í samræmi við rótgrónar hugmyndir um þrískiptingu ríkisvaldsins. Hugmyndin um að kjósa framkvæmdavaldið sérstaklega er góðra gjalda verð, það er t.d. gert í Bandaríkjunum og Frakklandi að einhverju leyti, en það er mun róttækari hugmynd en þær breytingar sem hér hafa verið lagðar til og klárlega efni í annan og lengri pistil.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.