Dýrir verndartollar

Hér á Deiglunni hefur oft verið fjallað um mikilvægi þess að fella niður verndartolla á landbúnaðarafurðir. Þrátt fyrir alla þessa umfjöllun eru tollarnir enn með þeim hæstu í heimi.

Hér á Deiglunni hefur oft verið fjallað um mikilvægi þess að fella niður verndartolla á landbúnaðarafurðir. Um þetta og tengd efni hefur m.a. verið fjallað hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér. Þrátt fyrir alla þessa umfjöllun eru tollarnir enn með þeim hæstu í heimi.

Nú nýlega hefur þessi umræða komist aftur í deigluna með enn einum misheppnuðum fundi í Doha samningaviðræðum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar og sérstaklega eftir að skýrsla Matvælanefndarinnar svokölluðu var birt í síðustu viku.

Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt OECD sé kostnaður Íslendinga vegna þessarar verndarstefnu samtals 14 milljarðar árlega þegar tekið er saman bæði beinir styrkir og kostnaður við hærra vöruverð (Til að setja þetta í samhengi þá er þessi upphæð meiri en heildarkostnaður við alla háskóla landsins árið 2003 (9 milljarðar, Hagstofan), meiri en samanlagður kostnaður hins opinbera af löggæslu, brunavörnum, dómstólum og fangelsum í landinu árið 2003 (13 milljarðar, Hagstofan) og jafngilt um 180.000 kr. á hverja 4 manna fjölskyldu).

Hvað varðar verndartolla á landbúnað segir m.a. í skýrslunni (bls. 7):

„Viðhorf innan nefndarinnar til innflutningsverndar fyrir búvörur eru ólík. Í
nefndinni hafa verið settar fram tillögur um að draga beri úr og afnema að
mestu innflutningsvernd fyrir búvörur, gera markaðskerfi landbúnaðarafurða
opnara og frjálsara en nú er en auka á móti beinan stuðning við
bændur og við byggð í landinu. Gagnstæð sjónarmið eru þau að með
slíkum aðgerðum væri rekstrargrundvelli landbúnaðarins raskað, að erfitt
sé að finna beinum auknum stuðningi við landbúnaðinn stað og að ekki
beri að hrófla við núverandi markaðskerfi nema að því marki sem
nauðsynlegt kann að reynast í samræmi við mögulegan nýjan
viðskiptasamning innan vébanda Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.“

Pistlahöfundi er ekki alveg ljóst hvað er átt við með því „að erfitt sé að finna beinum auknum stuðningi við landbúnaðinn stað“ og þykir ólíklegt að það feli í sér veigamikil rök gegn breytingunum. Því sjónarmiði að bíða skuli eftir niðurstöðum Doha viðræðnanna var samkvæmt skýrslunni mótmælt í nefndinni og bent á að ekki sé líklegt að samningar takist sem myndu krefjast breytinga á íslensku tollakerfi sem hefðu mikil áhrif á lækkun matvöruverðs auk þess sem það sé alls ekki víst hvort eða hvenær samningar náist.

Vissulega yrði rekstrargrundvelli landbúnaðarins raskað ef innflutningsvernd fyrir búvörur væri takmörkuð eða aflögð. En það er einmitt einn af kostunum við slíka stefnu. Núverandi kerfi er mjög dýrt og ef röskun þýðir að kerfið færist í átt til aukins valfrelsis fyrir neytendur, sparnaðar fyrir skattgreiðendur og lægra vöruverðs þá er röskun einmitt það sem skyldi stefna að (og mætti þá nefna framþróun).

Að sjálfsögðu er skiljanlegt að tillögur um minni eða breyttan stuðning við landbúnað mæti andstöðu meðal fulltrúa bænda í nefndinni. Bændur hafa lagt í mikla fjárfestingu — bæði í landi, húsnæði og tækjum en einnig í eigin menntun og reynslu — sem gæti farið að hluta til forgörðum ef slíkt yrði raunin. Að sjálfsögðu þarf að koma til móts við það sjónarmið og það er gert í skýrslunni með því að benda á þann möguleika að auka á móti beina styrki til bænda. En það er ljóst að kostnaður við breytingar í frelsisátt er lágur miðað við kostnaðinn við að halda uppi óhagkvæmum, ríkisstyrktum landbúnaði hér til frambúðar.

Ekki aðeins er núverandi kerfi mjög dýrt fyrir Íslendinga heldur er það líka hlekkur í keðju viðskiptahindrana og verndarstefnu sem halda aftur af framþróun í heiminum og gera fátækum löndum enn erfiðara að brjótast úr fátæktargildrunni. Ef Íslendingar tækju núna skrefið í átt til lækkunar eða afnáms á verndartollum þá myndum við leggja okkar að mörkum til að samkomulag geti náðst í Doha samningaviðræðunum. Samkvæmt útreikningum Alþjóðabankans gæti full frelsi í viðskiptum á endanum leitt til aukinnar framleiðni í heiminum upp á 300 milljarða dala og af því gætu allt að 86 milljarðar farið til þróunarlandanna. Það er í raun hræðilegt til þess að hugsa að við Íslendingar séu meðal þeirra sem helst standa gegn slíkri framþróun með verndarstefnu okkar í landbúnaði.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)