Þekkjast allir á Íslandi?

Á spjalli við útlendinga er algengt stef að þeir spyrji fyrst hvað það séu eiginlega margir (eða fáir) sem búa á Íslandi og svo, þegar þeir vita svarið, hvort allir á Íslandi þekkist þá ekki. Þó það sé auðvitað ekki alveg þannig kitlar stundum að svara játandi. Það er eitthvað svo sæt tilhugsun að Ísland sé svo fámennt að við þekkjumst öll og séum öll vinir.

Á spjalli við útlendinga er algengt stef að þeir spyrji fyrst hvað það séu eiginlega margir (eða fáir) sem búa á Íslandi og svo, þegar þeir vita svarið, hvort allir á Íslandi þekkist þá ekki. Þó það sé auðvitað ekki alveg þannig kitlar stundum að svara játandi. Það er eitthvað svo sæt tilhugsun að Ísland sé svo fámennt að við þekkjumst öll og séum öll vinir. Um 360.000 vinir og kunningjar. Návígið er samt auðvitað meira en í flestum öðrum löndum. Ég man eftir því að hafa staðið orðlaus í Nóatúni í JL-húsinu 10 ára gömul þegar ég sá Vigdísi forseta versla í matinn. Ég man meira að segja að hún setti Trópi appelsínusafa ofan í körfuna sem mér hefur alla tíð síðan þótt mjög vandaður drykkur. Þá var ég nýflutt til Íslands frá Svíþjóð og þar hefði ég sennilega ekki séð Silviu drottningu í búðinni að kaupa djús.

Þegar Íslendingum vegnar vel er eins og svarið við spurningunni breytist og eins og við trúum því sjálf að svona sé staðan. Að við þekkjumst öll. Þær stundir eru dálítið sjarmerandi. Þangað til alveg nýlega hafði ég ekki heyrt af Hildi Guðnadóttur. Samt vakti ég heila nótt til að fylgjast með henni á Óskarsverðlaunahátíðinni. Ég var heima að horfa á sjónvarpið og skrifaðist á við vini og vinkonur um það sem var að gerast og það sem var mögulega í vændum. Við vildum öll að henni vegnaði vel þessa nótt og töluðum líka mikið um að hún þyrfti ekki á því að halda að sigra þetta kvöld. Hún hafði þegar fengið heilt safn af verðlaunastyttum og hefur gert miklu meira en að sanna sig.

Stundin var söguleg og ég upplifði þessa stund einhverra hluta vegna sterkt sjálf. Auðvitað eykur það bæði á mikilvægi og fegurð verðlaunanna að það var kona sem hlaut þau en í stóra samhenginu gleðjumst við hér heima fyrst og fremst vegna þess að það var íslensk kona, Íslendingur, sem vann til þessara verðlauna. Og í fyrsta sinn. Þegar Hildur síðan vann fékk ég eitthvað í augað eins og stór hluti þjóðarinnar. Mér leið nánast eins og þarna stæði vinkona mín. Skilaboð hennar til kvenna og stúlkna voru mikilvæg og ótrúlega margir hafa síðan deilt þessum sterku orðum hennar á samfélagsmiðlum.

Daginn eftir hófst svo sætt stef á samfélagsmiðlunum. Við fórum að deila því hvað við vorum öll sem eitt lukkuleg með sigur okkar konu og margir sögðu um leið frá hvernig þau tengjast Hildi. Sú stemmning er hugguleg. Það virðist síðan í sjálfu sér kannski ekki þurfa áberandi mikil tengsl eða vensl til þess að segja frá þeim. Í hvaða lið fólk er skylt henni og yfir í að hafa líka átt heima í Berlín eða kannski bara komið til Berlín. Og svo þeir sem spiluðu á leikinn með frásögn um af hafa einmitt verið í bekk með strák sem var einu sinni í hljómsveit með Hildi. Mitt framlag hér um hvernig ég tengist Hildi gæti kannski verið að ég var einu sinni í menntaskóla eins og hún, ekki sama menntaskóla en samt.

Kannski er það spurningin sem er röng frekar en svarið. Það skiptir ekki máli hvort allir þekkjasta á Íslandi eða ekki. Á stundum sem þessum þá verða nefnilega til einhverjir töfrar á litla Íslandi, sem er stærra og merkilegra einkenni á þjóðinni en hvort við þekkjumst öll. Við upplifum öll að Hildur er ein af okkur. Við gleðjumst eins og okkar eigin systir hefði staðið á sviðinu. Þessi fallega og dálítið sérstaka samstaða stafar kannski af því að við erum fámenn þjóð. Við þekkjumst ekki öll en erum stundum eins og ein stór fjölskylda og stöndum saman sem einn maður. Þannig ætla ég næst að svara spurningunni um hvort ég þekki alla á Íslandi.

Latest posts by Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (see all)

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar

Obba hóf að skrifa á Deigluna sumarið 2001.