Þegar gulrótin hverfur

Einhver gæti sagt að nýlegir atburðir í Tyrklandi sýni að landið eigi ekki heima í Evrópu, að öll hugmyndin um ESB-aðild Tyrklands hafi allan tíma verið fáranleg. En það er ekki svo.

Samanborið við önnur ríki í hinum íslamska menningarheimi er Tyrkland frjálslynt, vestrænt og veraldlegt. Og þótt eftirstríðssaga Tyrklands geymi bæði herforingjastjórnir og vafasama leiðtoga (eins og þann sem er núna) þá er það ekkert einsdæmi í Evrópu. Um helmingur aðildarríkja ESB hefur verið undir herforingja- eða alræðisstjórn á seinustu 40 árum.

ESB kann þetta. Evrópusambandið getur  boðið nýfrjálsum löndum upp á ákveðinn lögfræðilegan pakkadíl: Vestrænt stjórnarfar, frjáls markaður, frjálst flæði fólks og styrkir. Ríkjum er í raun borgað fyrir að taka upp þýsk lög. Nýleg dæmi eru: Íberíuskaginn, Austur-Evrópa og Balkanskaginn. Löndin á þessum svæðum komust út úr ruglinu og vissu strax hvert þau áttu að fara.

Á þann hátt var Tyrkland ekki ólíkt. Það gekk í gegnum valdarán hersins. Það sótti um aðild að ESB. Stjórnmálamennirnir sáu áhrif, borgararnir sáu betri lífsgæði. Umsóknin lá á ís í tvo áratugi en þegar viðræður hófust þá verður að segjast að það var ekki algerlega af tilefnislausu. Margt hafði sannarlega batnað í Tyrklandi. Margar skýrslur (t.d. frá Freedom House) sýndu það. Tyrkland 2005 var betra land en Tyrkland 1995.

Evrópusambandið hafði gert það sem vit var í að gera. Það sagði við Tyrkland: Þið þurfið að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta sótt um aðild. Þið fáið svo ekki aðild nema að þið uppfyllið enn fleiri skilyrði. Kannski þykja einhverjum þetta draumórar. En hugmyndin um evrópsks, vestrænt, veraldlegt og nútímalegt Tyrkland er einfaldlega of frábær til að gefa henni ekki í það minnsta tækifæri til að verða að veruleika.

Allir vita að “þú mátt aldrei aftur horfa á Hvolpasveitina, ég brýt diskinn” er síðri uppeldislína en “þú mátt horfa á sjónvarpið ef þú tekur til í herberginu þínu.” Kannski veit maður að tiltektin verður löng og næst vart fyrir háttatíma en það þýðir samt ekki að tilkynna í miðjum klíðum að það verði ekkert sjónvarp, og vonast svo til að barnið haldi áfram að taka til eins og ekkert sé.

Þegar að stjórnmálamenn í stofnríkjum ESB fóru árétta þá afstöðu síða aða Tyrkland fengi ekki inngöngu, þrátt fyrir að viðræður stæðu yfir, var ekki skrýtið að stuðningur við ESB-aðild í Tyrklandi hafi farið að dala. Pakkadíllinn datt út af borðinu. Og þegar það gerist þá vitum við að einhver mun bjóða fólki eitthvað annað í staðinn. Þrýstingurinn hverfur. Öfgaöflin vaxa og eflast.

Tyrkland er auðvitað ekki eina dæmið um að Evrópa missir áhrif við að taka í burtu gulrót sem það er búið að veifa framan í nágranna sína. Hollenskir kjósendur höfnuðu þannig fullkomlega eðlilegum og jákvæðum samstarfsamningi ESB við Úkraínu. Þetta var auðvitað gert með fullum stuðning Nigel Farage og annarra víðsýnna breskra alþjóðasinna. Við gátum hjálpað til við að gera Úkraínu betri. En einhver hvatti fólk eindregið til að gera það ekki. Í hreinum pólitískum tilgangi.

Evrópusambandið er ekki fullkomið, en það hefur haft alveg ótrúlega jákvæð áhrif á lífsgæði og stjórnarfar í þeim löndum sem nýlega hafa gengið í það. Og það hefur áfram möguleika til að bæta lífsgæði og stjórnarfar í löndum eins og Bosníu, Serbíu, Svartfjallalandi, Albaníu, Kósóvó, Makedóníu, Tyrklandi og jafnvel Úkraínu og Móldóvu. Verkefnið er að sannfæra almenning í Evrópu að það sé þess virði.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.