Þegar ég var 19 ára á McDonalds – og af hverju vinnustaðalýðræði er ekkert spes hugmynd

Fyrsta launavinnan mín, önnur en vinna hjá bænum, var á veitingastaðnum McDonalds við Suðurlandsbraut. Það var yndisleg kvöldvinna meðfram námi á seinasta ári menntaskólans.

Fólk vildi fá mat. Það gaf mér pening. Ég gaf því mat.

Þetta var einfalt og skýrt. Ábyrgðin hófst þegar ég setti má mig derhúfuna í búningherberginu klukkan fimm eftir hádegi og henni lauk þegar ég tók leigubíl heim á kostnað auðvaldsins eftir miðnætti. Þess á milli bar ég enga ábyrgð á starfsemi og rekstri McDonalds og þurfi ekki að hafa af honum neinar áhyggjur.

Ég vildi fá pening. McDonalds gaf mér pening. Ég gaf McDonalds tímann minn.

Fólk, og gjarnan fólk fremur skorar fremur hátt á „róttækni“-skalanum talar gjarnan fyrir „vinnustaðalýðræði“. Vinnustaðalýðræði kann að hljóma eins og heillandi og valdeflandi hugmynd og auðvitað tryggir félagafrelsisákvæðið stjórnarskrárinnar að fólk getur búið til alls konar félög, þar með talið félög sem stunda rekstur (sem sagt fyrirtæki) og að þessum félögum geti verið stjórnað af starfsmönnum þeirra. Það er ekkert sem bannar þetta og ef þetta væri besta leiðin til að reka fyrirtæki hefði þetta félagaform væntanlega tekið yfir og orðið ráðandi. Það hefur alla vega ekki gerst enn þá. 

Völdum fylgir alltaf ábyrgð. Það er óhjákvæmilegt að þegar talað er fyrir auknum völdum starfsmanna er um leið verið að tala um leið fyrir aukinni ábyrgð þeirra. Til dæmis ábyrgð á erfiðum ákvörðum til dæmis varðandi ráðningar og uppsagnir samstarfsfólks. Þau mál eru sjaldnast einföld. Flestir stjórnendur myndu taka undir það og algjör óþarfi að dreifa þeirri ábyrgð á fleiri staði. Fólk á líka að geta fengið að vera í friði fyrir ábyrgð.

***

Dag einn ákvað ég að ég hefði ég ekki lengur tíma til að vinna á McDonalds. Ég hafði safnað mér þeim pening sem ég vildi og vildi einbeita mér að náminu. Ég tilkynnti yfirmanni mínum að ég væri hættur. Honum fannst það leiðinlegt. Það hafði gengið ágætlega að hafa mig í vinnu. Hann skildi það svo sem alveg, held ég. En óháð því hvort hann skildi eða ekki það gat hann ekkert gert.

Ég þurfti engar áhyggjur að hafa af því hvaða afdrífaríku áhrif þessi ákvörðun mín kynni að hafa. Ég sagði nokkur orð og þarmeð þeirri litlu ábyrgð sem ég hafði gagnvart McDonalds var lokið. Alþjóðlegur risi gat nákvæmlega ekkert gert í því. Ég var laus. Það var valdeflandi.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.