Það sem Súper Mario Bros hefur kennt okkur um ólík siðferðisviðmið fólks

Þótt tölvuleikir hafi verið til í um hálfa öld mun víst taka einhvern tíma í viðbót þangað til að smástirni verða spurð um tölvuleikjaspilun sína í mannlífsdálkum dagblaða og tímarita. Enn sem komið er enn gert ráð fyrir að allir séu með “bók á náttborðinu”. Og lesa hana líka. Forsætisráðherra fær að sleppa við spurningar um best Fallout-leikinn eða uppáhaldslútið í Fornite að hennar mati.

Tölvuleikir eru síst síðra listform en bækur eða kvikmyndir. Jafnvel æðra. Í þeim birtast nefnilega ákvarðanir sem spilarar þurfa að taka. Bæði ákvarðanir sem varða persónur í leiknum sjálfum (eða aðra leikmenn) sem og ákvarðanir um spilun leikjanna sjálfra.

Samkvæmt Spilaratýpuprófi Bartles er undirritaður þannig “könnuður” (e. explorer). Slíkir spilarar leggja mikið upp úr því að skoða öll svæðin í leiknum en er drullusama um fólk, lifandi eða uppspunnið. Ég tengi við það, en til viðbótar hef ég lagt mig fram við að spila leikina eins og þeim var ætlað að verða spilaðir.

Sú afstaða að spila tölvuleikina eins og þeir voru hugsaðir er að einhverju leyti lærð afstaða. Lengi vel var það þannig að ef maður gerði eitthvað skrýtið, eins og að kafa án kafarabúnings eða hoppa yfir flaggstöng í enda borðs, gat vel gerst að leikurinn bókstaflega krassaði og maður þurfti að byrja upp á nýtt.

Ég er því einn þessara spilara sem staldrar við mikilvægum stöðum í leikjum og spyr: á ég að gera eitthvað annað áður en ég held áfram inn í kastalann? Var ég örugglega búinn að finna allar stjörnurnar? Ég skynja það sem ákveðna virðingu við höfunda leikjanna, að drekka í mig þann söguþráð sem þeir höfðu hugsað sér að ég myndi dreypa á.

Út frá kenningum siðfræðinnar má segja að þess háttar spilun falli að dyggðakenningum Aristótelesar. Maður fer inn í rör af því að rörið er hugsað til þess. Maður stoppar á vegg því að veggurinn er hugsaður til að stoppa mann.

Að einhverju leyti má segja að slík spilun feli líka í sér kantíska nálgun á tölvuleiki. Að spila þá eins og við viljum að allir spili þá. Ef allir tækju einungis upp á því að brjóta tölvuleiki niður í frumeindir í leit að brellum myndu allir leikjaforritarar detta í þunglyndi, glaðvær hópur sem þeir að jafnaði eru.

Með því að beita mjög súrum trikkum er hægt að klára suma leiki á örskammri stundu. Hér má til dæmis sjá mann klára Super Mario World á 43 sekúndum  með því að raða skeljum, og peningum á hárrétta staði á skjánum og láta leikinn krassa þannig að hann varpi okkur á endaskjáinn. (Sjá: https://www.speedrun.com/smw/run/zp0q5rvm)

Stuðningsmenn nytjahyggjunnar hafa væntanlega ekkert við þessa spilamennsku að athuga. Ásetningurinn leiksins skiptir engu máli, aðeins lokaniðurstaðan. Ákveðinn hópur spilar kallar sig svo „speed-runners“ og einbeitir sér að því að klára leiki á sem stystum tíma. Þetta er svo sem ekki stór félagsskapur fyrir hvern leik. Líklegast svipaður að stærð þeim hóp sem reynir að klífa K2 að vetri til án súrefnis.

Hvorugan hóp er ætlun að dæma í þessari grein, enda Deiglan með eindæmum frjálslynt og víðsýnt vefrit sem gerir sér grein fyrir ólíkum lífsgildum fólks og áhættumati. En fróðlegt er að velta þessum mun fyrir sér og vera meðvitaður um hann.

Að lokum: Hér er einhver hress gaur að fara í gegnum rör og vegg á borði 1-2 í Super Mario Bros til að spara sér nokkur sekúndubrot.

Það myndi Kant aldrei gera.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.