Stjórnarskrár sem ekki er farið eftir gera samt gagn

Sviðsmynd: Heimurinn er árgangur í Verslunarskólanum. Ríki heimsins eru nemendur í skólanum. Dag einn leggja kennararnir fyrir verkefni: Nemendurnir eiga að skrifa sér stjórnarskrá, hver og einn.

Viku síðar er boðað til fundar í aðalsal skólans. Skólameistarinn heldur ræðu. Honum er ekki skemmt.

“Þetta gengur ekki!” hrópar hann. “Þetta er allt eins! Þið áttuð að vinna allt sjálfstætt. En þið skrifuðuð verkefnin upp hvert eftir öðru. Alls staðar er þrískipting ríkisvaldsins, jafnrétti, málfrelsi, félagafrelsi, sjálfstæðir dómstólar… héldu þið að við myndum ekki fatta það? Þið eruð öll fallin.”

“Nema Bretland.“ heldur hann áfram. „Hvar er eiginlega þitt verkefni, Bretland?”

“Það er bara á hinum og þessum blöðum, og sumt er bara i kollinum á mér,” svarar Bretland skömmustulegt.

“Ókei, hreinskrifaðu og skilaðu eftir helgi. Og þið hin líka! En ekkert svindl í þetta skipti.”

***

Ég var að lesa bókina “Untill we are free” eftir Shirin Ebadi, íranskan mannréttindalögfræðing og friðarverðlaunahafa Nóbels frá árinu 2003. Þetta er eðlilega athyglisverð bók. Á þeim áratug eftir að Shirin fékk verðlaunin var skrifstofu hennar lokað, hún flúði land, maðurinn hennar dæmdur til dauða fyrir framhjáhald eftir tálbeituaðger (en samdi sig frá því með því að tala illa um hana í sjónvarpinu), verðlaunafé hennar var gert upptækt, eignir hennar seldar og margt af gömlu samstarfsfólki hent í fangelsi eða þaðan af verra.

Það sem situr lestur bókarinnar eftir er meinar hennar um að hún sé ekki að stunda andóf, hún sé ekki stjórnarandstæðingur, heldur einungis lögfræðingur. Þarna endurómar hún eldri rit Vaclav Havels og annarra “andófsmanna” í harðstjórnarríkjum sem gjarnan pirruðu á þessum andófs-merkimiðum. Maður getur skilið það. Ef stjórnarskráin tryggir réttláta málsmeðferð fyrir dómi, hvert er þá “andóf” þeirra sem vilja koma í veg fyrir að fólk sé pyntað til dauða við yfirheyrslur? Í hverju felst andóf manns sem vill stofna félag eða gefa út blað?

Stjórnarskrá Írans er þannig séð fín. Hún gæti alveg verið stjórnarskrá ríkis sem er til fyrirmyndar í mannréttindamálum. Textinn er að mestu þannig.

Þetta er málið með ástand mannréttinda í harðstjórnarríkjum. Við höldum stundum að vandinn séu vond lög, því það er það eina sem við tengjum við. Það er stundum hluti vandans en aðalmálið er að valdhafarnir hundsa bara lögin að vild. Jafnvel ströngustu Sjaría lög gefa mönnum stundum meiri rétt en harðstjórarnir vilja kannast við.

Ég ber mikla virðingur fyrir fólki eins og Shirin Ebadi og öðrum lögfræðingum í þeirri stöðu eins og hún var í áður en hún flúði land. Fólki sem lætur eins og það búi í réttarríki til að afhjúpa að það gerir það í raun ekki. En alþjóðasamfélagið sér það þó að minnsta kosti. Og þegar harðstjórnirnar falla verður hægt að benda á þau fjölmörgu skipti sem þær höfðu brotið eigin stjórnarskrár.

***

Flest ríki, jafnvel þessi vondu, vilja samt láta líta út eins og þau ætli sér að vera góð. Stjórnarskrár heimsins eru því keimlíkar, alls staðar eru sömu mannréttinda-kaflarnir, sem líta út eins og einhver hafi afritað þá frá sama frjálslynda frumskjalinu. Og jafnvel ef ríkin fari ekki eftir neinu sem þar stendur þá gera þessar marklausu stjórnarskrár sitt gagn.

Þær afhjúpa hræsni sitjandi stjórnvalda.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.