Stærsta styttan af Stalín

Stærsta stytta heims af Stalín stóð í Prag á árunum 1955-1962. Hún var hönnuð af bakarasyninum Otakar Švec, sem þótti raunar ekki líklegur til að hneppa hnossið þegar keppni um hönnun styttunnar var haldin og öllum merkustu myndhöggvurum landsins boðið (les: skipað) að taka þátt.

Frægasti myndhöggvari Tékkóslóvakíu á þessum tíma, Karel Pokorný, á að hafa skilað inn teikningu af Stalín með útrétta arma, í líkingu frelsarans. Hann var víst ekki að leggja sig alllan fram við að vinna… ekki frekar en aðrir þátttakendur.

Stytta var „vígð“ á degi verkalýðsins 1955 en höfundurinn var ekki viðstaddur enda tók hann eigið líf tveimur mánuðum áður. Ástæðuna vitum við ekki að fullu en það hefur ekki truflað fólk frá því að geta í eyðurnar.

Styttan var sprengd í tætlur eftir Sovétmenn endurskoðuðu sínar hugmyndir um Jósep frænda og nauðsyn þess að dýrka persónu hans. Það náðist meira að segja á mynd. Sem auðvelt er að gúggla.

Um skamma stund árið 2016 mátti raunar aftur sjá risastóran haus Jóseps Stalíns á þessum stað í Prag. Þá var verið að taka upp kvikmynd um allan heila harmleikinn. En það var vitanlega fjarlægt eftir að tökum lauk. Og hefur Prag verið Stalínslaus síðan.

***

Amma mín bjó lengi á Karl Marx stræti. Hún býr ekki lengur á Karl Marx stræti heldur á stræti sem kennt er við orrustuna við Monte Cassino. Hún hefur samt ekkert flutt. Gatan breytti bara um nafn. Eins og ógrynni gatna í þessum heimshluta.

Dæmigerð pólsk breiðgata hefur frá aldamótunum 1900 heitið í höfuð af: Prússlandskeisara, Pólskri uppreisnarhetju, Prússlandskeisara aftur, Rauða hernum og svo loks í höfuð á pólskum páfa. Styttur hafa verið teknar niður og færðar eins og enginn sé morgundagurinn.

Það er því ekki eins og umræða um styttur, minnismerki og nöfn staða hafi aldrei átt sér stað áður. Það er einfaldlega þannig að fólk sem búið hefur í ríkjum sem ekki hafa sloppið við hersetur og kerfishrun er bara ekki vant henni.

Ég er reyndar ekki að segja að þetta sé alltaf auðveld umræða. Hún er það ekki. En bara mikilvægt að muna að styttur í almannarými eru ekki tæki til að varðveita söguna. Heldur til að skrifa hana, og meina eitthvað með því sem maður segir.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.