Ofríki í sóttvarnamálum

Illa ígrunduð ákvörðun sóttvarnayfirvalda um að loka komufarþega inni á sóttvarnahóteli er ber með sér virðingarleysi gagnvart grundvallarréttindum.

Enginn er spenntur fyrir því að veiran sleppi inn fyrir landamærin og öll viljum við lifa sem eðlilegustu lífi innanlands.

Engu að síður eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga til að hefta útbreiðslu sóttarinnar og er eðlileg krafa að lágmarka inngrip í daglegt líf til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll eins og kostur er.

Slík inngrip eru réttlætanleg í vissum tilfellum. T.d. væri eðlilegt að skylda einstaklinga til að vinna að sameiginlegu markmiði sem snýr að vörnum landsins í stríði og eins er hægt að réttlæta sóttvarnaraðgerðir til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll eða örkumlun í farsótt. Ríkir hagsmunir þurfa þó að vera í húfi enda ætti alla jafna að fara mjög varlega í að skerða persónufrelsi eða að ráðskast með einkahagi fólks.

Þó að skorður á réttindum geti í slíkum tilvikum verið forsvaranlegar, þurfa þess háttar ákvarðanir að standast skoðun bæði áður en þær eru teknar og eftir að hættan er liðin hjá. Rökstyðja þarf af hverju þær séu nauðsynlegar og síðast en ekki síst þarf að vera ljóst hvort aðrar og vægari aðgerðir, sem t.d. fela síður í för með sér skerðingu á persónuréttindum, myndu þjóna sama tilgangi. Gagnsæi er lykilatriði sem og vitneskja um hvar ábyrgð á slíkri skerðingu á grundvallarréttindum liggur, hvaðan umboðið fæst og eftir atvikum hvernig hægt sé að afturkalla það. 

Frá því að faraldurinn fór fyrst að láta á sér kræla hafa stjórnvöld gengið lengra og lengra í því að skerða frelsi og sjálfsögð réttindi. Það er ekkert eðlilegt við það fólk megi ekki koma saman í stærri hópum en 10, það varði sektum að fara út af heimili sínu, að stjórnvöld hafi skoðun á því hvort við berum grímu fyrir vitum okkar eða vilji vita hvar við erum öllum stundum. Hvað þá að þeir sem afþakki bólusetningu gætu gefið frá sér réttindi þegar fram líða stundir, svo sem ferðafrelsi eða aðgangi að grunnþjónustu. 

En eins og áður sagði geta, í ákveðnum undantekningatilfellum, verið það miklir hagsmunir í húfi að slík skerðing sé forsvaranleg.  

Það er þó algjör grundvallarkrafa að stjórnvöld beri nógu mikla virðingu fyrir þessum réttindum fólks að ekki sé kastað höndunum til innleiðingar slíkra inngripa.

Það virtist þó vera raunin þegar heilbrigðisráðherra gaf út reglugerð um að allir komufarþegar skyldu dvelja á sóttvarnarhóteli. Þó að auðvitað sé of djúpt í árina tekið að líkja þessari dvöl við fangelsi, verður ekki fram hjá því litið að um var að ræða tilraun sem fól í sér skerðingu á grundvallarréttindum.

Eins kom fram í afgreiðslu héraðsdóms og síðar landsréttar, var ekki heimild í lögum til þess að neyða fólk gegn vilja sínum að dvelja innilokað á hóteli. Óðagotið í framkvæmdinni ber vott um virðingarleysi fyrir persónufrelsinu og valdinu sem við felum ráðamönnum.

Á Deiglunni hefur ítrekað verið bent á að raunveruleg hætta sé á því að eftirköst faraldursins gætu orðið að stjórnvöld eigi hægara um vik að skerða mörg þeirra grundvallarréttinda sem við njótum í dag. Þessi afgreiðsla á nauðungarvist íslenskra ríkisborgara ber því miður þess merki að þröskuldurinn sé lægri en áður. Það er þróun sem ástæða er til að bregðast við og vinna á móti.

Þegar stjórnvöld hika ekki við að loka fólk inni án þess að kanna með nægjanlegum hætti hvort heimildir séu fyrir því, er ástæða til þess að staldra við.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.