Óbreyttan opnunartíma eftir COVID, takk.

Þegar ég var tvítugur ákvað alheimurinn að nú væri rétti tíminn til að gefa opnunartíma skemmtistaða í Reykjavík frjálsan. Þetta ástand varði ekki lengi en lenti akkúrat á réttum tíma fyrir mig. Tvítugt fólk í dag hefur klárlega ekki verið heppið með fæðingarár því allt hefur verið gert til að fórna félagslífi þeirra á altari sóttvarna.

Ef til vill var það allt nauðsynlegt og óumflúið. Það kann mjög vel að vera. En í guðanna, höfnum öllum hugmyndum um að nú sé kannski bara tími til að nýta ferðina og skerða varanlega opnunartíma skemmtistaða. Að nú verði kannski allir barir alltaf opnir til klukkan tíu á kvöldin. Og helst eigi allir að fara út að borða. Því það sé svo fágað. Og betra.

Nei, ég ætla ekki að hræða ungt fólk með yfirlýsingum um að nú sé heimurinn varanlega breyttur. Námsferðir og útskriftarferðir hafa fallið niður. Atvinnutækifærin snarminnkað. Félagslífið látið mæta afgangi. Kannski mun taka einhvern tíma að koma þessu aftur í gang. En höfum það það á hreinu, að það á að vera markmiðið. Ekki að nýta ferðina til að ala fólk upp.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.