Ný byggð í Skerjafirði truflar ekki aðflug

Tuttugu ár síðan að Reykvíkingar samþykktu í kosningu að flugvöllurinn ætti að fara úr Vatnsmýri og hafa allar borgarstjórnir síðan verið á þeirri sömu línu. Á þeim tveimur áratugum sem liðin eru frá ákvörðuninni hefur verið byggt á hálfri flugbraut af þeim þremur sem völlinn mynduðu upprunalega. Það er því varla “asi” á málinu eins og stundum má heyra á flugvallarsinnum. Raunar mætti asinn alveg vera meiri. En það er önnur saga.

Hlíðarendinn er að byggjast upp. Og nú stendur sem sagt til að byggja á hinum enda sömu flugbrautar, í Skerjafirðinum. Þar á að byggja um 3.000 manna byggð með um 1.300 íbúðum, nýjum grunnskóla, nettum þjónustukjarna og siglingaaðstöðu. Þessi áform mæta andstöðu líkt og margt annað sem gerist í kringum flugvöllinn. Ein rökin, sem flugvallarsinnar hafa fleygt fram, eru þau að nýja byggðin trufli svo vindinn í kringum flugbrautirnar að það skapi hættu.

Hollenska Geimferðarstofnunin skoðaði þennan þátt og er skýrsla þeirra nú opinber.

Í stuttu máli getur nýja byggðin geti mögulega haft einhver áhrif á vind í kringum brautirnar en breytingarnar eru almennt ýmist óverulegar eða ekki þannig að þær hafi áhrif á öryggi. Aðeins í einu tilfelli er farið yfir viðmiðin og er það í aðflugi að flugbraut 31 (lent frá Öskjuhlíð) sem er minnst notaða aðflugið á vellinum. Í þeim tilfellum mæla Hollendingarnir einfaldlega með ákveðnum mótvægisaðgerðum. Loks segir:

“It is therefore concluded that the identified risk is manageable and should not block the development of the Nýi-Skerjafjörður residential area.”

Lokaniðurstaða skýrslunnar er sem sagt sú að áhættan sé „viðráðanleg og ætti ekki að stöðva uppbyggingu Nýja-Skerjafjarðar”. Þá liggur það fyrir.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.