Nú væri gott að hafa sæstreng

Fyrir nokkrum mánuðum var þjóðfélagsumræðan gegnsýrð af deilum um orkupakka 3 sem var þó á endanum samþykktur. Þó ekki sé langt síðan að umræðan náði hámarki er samt ástæða til að rifja upp að hræðsla andstæðinga pakkans við samþykkt hans gekk að miklu leyti út á að ef hann yrði hluti af íslenskri löggjöf væri okkur gert að tengjast orkukerfi Evrópu um sæstreng. Að við myndum missa forræði yfir orkuauðlindunum, Íslendingar myndu einhvern veginn glata sjálfsákvörðunarréttinum um lagningu hans og í kjölfarið myndi unga fólkið flykkjast burt frá tækifærasnauðu landi.

Fyrir nokkrum mánuðum var þjóðfélagsumræðan gegnsýrð af deilum um orkupakka 3 sem var þó á endanum samþykktur. Þó ekki sé langt síðan að umræðan náði hámarki er samt ástæða til að rifja upp að hræðsla andstæðinga pakkans við samþykkt hans gekk að miklu leyti út á að ef hann yrði hluti af íslenskri löggjöf væri okkur gert að tengjast orkukerfi Evrópu um sæstreng. Að við myndum missa forræði yfir orkuauðlindunum, Íslendingar myndu einhvern veginn glata sjálfsákvörðunarréttinum um lagningu hans og í kjölfarið myndi unga fólkið flykkjast burt frá tækifærasnauðu landi. 

Þessu til stuðnings voru grafnar upp fréttir af aðilum sem áttu að vera í startholunum að byggja slíkan streng og gefið í skyn að þeir væri komnir á fremsta hlunn með það að hrifsa af okkur auðlindirnar. Ekki var haft fyrir því að kanna hvort forsendur væru fyrir slíkum framkvæmdum og hvort þær yfirhöfuð borguðu sig. 

Engu máli skipti þótt að það hafi ítrekað verið bent á að þessar áhyggjur væru fullkomlega ástæðulausar. Lagning slíks strengs yrði ávalt á okkar forræði og t.d. að fyrir framkvæmdinni þyrftu að vera viðskiptalegar forsendur. Og það sem mestu máli skipti: Að strengurinn yrði aldrei lagður nema að það væri hagstætt fyrir okkur Íslendinga. 

Skemmst er frá því að segja að eftir að pakkinn var samþykktur á Alþingi hefur ekkert heyrst af þessum meintu hrægömmum sem ætluðu leggja strenginn enda ljóst að um hreinræktaðan hræðsluáróður var að ræða. 

Hins vegar liggur nú fyrir að einn stærsti kaupandi orkunnar okkar íhugar að hætta starfsemi hér á landi. Almennt séð stendur stóriðja á Íslandi höllum fæti vegna markaðsaðstæðna. Þess má geta að álverið í Straumsvík skapar um 1250 störf, bein og óbein og aflar um 60 milljarða í gjaldeyristekjur en þar af fara um 22 milljarðar í laun og orku. Þó svo að Landsvirkjun sé líklega með sölutryggingu við Rio Tinto til ársins 2036 vekur staðan athygli á samningsstöðu orkufyrirtækisins til lengri tíma. 

Það getur vel farið svo að stóriðja á Íslandi minnki að umsvifum í því erfiða árferði sem nú ríkir. Þó svo að ekki sé ástæða til of mikillar svartsýni og að vonandi finnum við önnur not fyrir rafmagnið getur verið erfitt að finna stórkaupendur að orku. Jafnframt skapar mikið framboð af rafmagni og minni eftirspurn það að verkum að orkufyrirtækin okkar neyðast til að lækka verð til erlendra stórkaupenda. Að öðrum kosti að láta fallvötnin okkar renna um rándýrar virkjanir út i sjó án þess að auðlindirnar séu nýttar þjóðfélaginu til hagsbóta. 

Vegna hlýnunar loftslags munu afköst virkjananna líklega batna á næstu árum með tilheyrandi aukningu á raforkuframleiðslu. Þó svo að þessi aukning komi ekki til af góðu er engin ástæða til að láta hana fara til spillis og kemur því í hlut Landvirkjunar að finna kaupendur. 

Það liggur því beint við að hugsa til þess hvort það væri ekki betra ef Ísland væri tengt meginlandi Evrópu um sæstreng. Með strengnum gætum við selt hluta okkar umhverfisvænu umframorku á markaðsverði og þannig m.a. gert okkar til að minnka þörf á raforkuframleiðslu með kolum t.d. í Bretlandi. 

Samningsstaða orkufyrirtækjanna okkar væri allt önnur en hún er i dag og við hefðum kost á því að selja raforku til hæstbjóðenda í Evrópu, stefnt að því að halda í stóriðjuna eða jafnvel fundið einhver allt önnur not fyrir orkuna sem þrátt fyrir strenginn væri á hagstæðu verði hér á Íslandi í ljósi flutningskostnaðar til Evrópu. Við Íslendingar værum þannig í mun betri stöðu en í dag og líklegri til að njóta arðs af fjárfestingum undanfarinna áratuga til að byggja upp samfélagslega innviði eða lækka skatta. 

Orkupakki 3 myndi tryggja að þetta væri gert með viðskiptalegum forsendum. Með löggjöfinni er skapaður grundvöllur fyrir sjálfstæðum eftirlitsaðila, leiðir skilgreindar til úrlausna ef til deilna kemur og skerpt á neytendavernd. Hann myndi þannig stuðla að gagnsæi og markaðsverði í viðskiptum með orkuna sem við augljóslega nytum góðs af. 

Þó svo að ólíklegt sé að strengurinn verði lagður á næstu árum m.a. vegna lágs raforkuverðs í Evrópu og stóraukinnar framleiðslu á vistvænni orku um allan heim hefði framsýni um byggingu hans fyrir nokkrum árum getað skipt sköpum fyrir okkur Íslendinga sem núverandi þrengingar stóriðjunnar sýna svo vel.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.