Megi opnu rýmin deyja drottni sínum

Fyrir nokkrum áratugum byrjaði sú tíska að setja skrifstofufólk í stór opin rými. Það var auðvitað fyrst of síðast gert til að lækka húsnæðiskostnað fyrirtækja. En auðvitað tókst að búa til einhverja hugmyndafræði á bak við þetta. Að þetta létti andrúmsloftið, bryti niður múra og auðveldaði tengsl. Nú væri bara hægt að pikka í næsta mann og bögga hann. Þess vegna fóru allir að ganga með heyrnartól. Bless, sjálfssprotin tengsl.

Nýjasta trendið var fara skrefinu lengra og taka burt persónuleg skrifborð hvers og eins. Þar sem búið var að reikna út að stór hluti skrifborða væri auður hverju sinni, væri hægt að fækka plássinu sem því næmi. Fólk myndi þá bara velja sér autt skrifborð þegar það kæmi. Þar með yrðu allir jafnir, og fólk gæti kynnst nýjum sessunautum á hverjum degi. Og svona. En auðvitað snerist þetta aftur aðallega um kostnað. Því ekkert í okkar náttúru lætur okkur líða betur ef við megum ekki einu sinni hengja upp mynd af börnunum á gráu skilrúminu.

Þessar hugmyndir pössuðu auðvitað engan veginn inn í Covid-ástand. Hvað er verra frá sjónarhóli smitvarna en stórt opið rými þar sem fólk situr þétt, með nýja sessunauta á hverjum degi? Ekkert. Alveg eins gott að láta alla sleikja hurðarhúninn á klósettinu.

Mun fólk sætta sig við sama farið þegar það fer aftur að heimann? Mun fólk sætta sig við að þurfa að sitja beinn í baki í dragt eða jakkafötum við skrifborð í opnu rými og pikka á lyklaborð? Það er ekki endilega þannig sem besta vinnan er unnin. Stór hluti pólitískra pistla er þannig skrifaður uppi í rumi eða sófa, oft í sokkum.

Kannski munu vinnuveitendur átta sig á að stór hluti fólks getur áfram unnið heima, sparað ferðatíma og ferðakostnað. Og jafnvel boðið hinum að leigja sér rými nálægt sér eða gert þá vinnurýmin aðeins hlýlegri og persónulegri. 

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.