Líðan þjóðarinnar verður næsta verkefni

Þegar baráttan við veiruna var að hefjast vorum við sem þjóð sennilega á fyrstu stigum áfalls. Athyglin var þá öll á að lágmarka þann skaða sem veiran gæti unnið okkur og þjóðin var staðráðin í að standa saman. Verkfærin sem notuð voru í þeirri baráttu höfðu í för með sér töluverða skerðingu á daglegum lífsgæðum, en viðbrögð og stuðningur fólks réðu höfðu þar mikil áhrif, ekki síður en störf fólksins inni á spítölunum og í heilbrigðiskerfinu. Fólk sýndi samstöðu með því að fara að fyrirmælum og tilmælum þó þau væru mörgum erfið.

Heilbrigði, efnahagur og líðan

Veiran og baráttan gegn henni hefur áhrif á þrjá stóra þætti; heilbrigði, efnahag og líðan þjóðar. Þessir þrír þættir eru allir þýðingarmiklir um framhaldið. Áherslan var fyrst eðlilega á heilbrigði okkar. Nú er verkefnið að mæta alvarlegri efnahagskrísunni, að verja fyrirtækin og með því fólk frá atvinnuleysi. Tugþúsunda atvinnuleysi rammar inn hver staðan þar er. Höggið er þungt á mörg fyrirtæki og í reynd stóran hluta atvinnulífsins. Stærsta hópuppsögn sögunnar blasti við okkur í gær. Reynsla af áföllum kennir okkur að fyrst kemur oft fram kraftur og jafnvel bjartsýni þegar erfitt verkefni blasir við. En til þess að krafturinn hverfi ekki þarf að vera von um framhaldið. Allir skilja og skynja fjárhagslegar afleiðingar fyrir heimilin, fyrir fyrirtækin og fyrir efnahagslífið. Önnur afleiðing verður samfélagsleg. Stór þáttur í allri andlegri líðan er nefnilega sú tilfinning um að maður geti haft áhrif á gang sinna mála, að hafa eitthvað um sitt daglega líf að segja. Upplifun um að hafa ekki stjórn á eigin lífi og aðstæðum hefur í för með sér áhyggjur sem leiðir auðveldlega til vanlíðunar. Í aðgerðum stjórnvalda er óskandi er að þau séu læs á hvað það þýðir fyrir fólk, samfélag og þjóð að standa frammi fyrir miklu atvinnuleysi og hvers vegna það er svo mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði langvarandi. Þar skiptir máli að horfa ekki á atvinnuleysi eingöngu út frá því hvað hann gerir fjárhag heimila og efnahag þjóðar. Það mun skipta miklu að stjórnvöld gleymi ekki þessum þriðja þætti hins ógnarstóra verkefnis, sem er að horfa til líðan þjóðarinnar í aðgerðum sínum.

Birtingarmyndir atvinnuleysis

Atvinnuóöryggi og atvinnumissir leiða auðvitað í byrjun fyrst og fremst til þess að lífskjör fólks verða verri. Hinar augljósu afleiðingar eru fjárhagslegar. Þar geta stjórnvöld brugðist við. En ef við ætlum að halda okkar striki verðum við samhliða að vera læs á hvað atvinnuleysi getur kostað samfélagið, sér í lagi ef það verður mikið og langvarandi. Sú breyting sem verður á daglegu lífi fólks hefur nefnilega ekki síður alvarlegar afleiðingar í för með sér. Atvinnumissir hefur sálrænar afleiðingar á fólk og félagslegar afleiðingar fyrir samfélagið. Áhyggjur, streita og kvíði hefur áhrif á heimilislíf. Þjóðir sem hafa glímt við langvarandi atvinnuleysi vita þannig hvaða áhrif sú staða foreldra getur haft á æsku og velferð barna. Þessi lönd þekkja hvaða félagslegu vandamál grafa um sig í því ástandi. Atvinnumissirin er eins og hvert annað áfall að því leyti til að það getur gert okkur viðkvæmari fyrir öðru mótlæti og sennilega er hærri skilnaðartíðni hjá atvinnulausum en fólki í vinnu ekki tilviljunin ein. Flestum er eðlislægt og mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni. Við viljum viðfangsefni og verkefni. Daglegur veruleiki og félagslegt líf byggir oft á vinnunni, og hvernig það spilar saman við fjölskyldulíf og áhugamál. Vinnan er mörgum nefnilega langtum meira en afkoman. Þegar vinnan fer verður til tómarúm sem snýst um fleira en afkomuna, sem þó er dramatískasta og augljósasta afleiðingin fyrst um sinn. Birtingarmyndir mikils og langvarandi atvinnuleysis eru fjölbreyttar og því miður margar alvarlegar. Líðan þjóðarinnar er þess vegna ekki bara eitthvert hjal þegar horfumst í augu við efnahagslegt áfall eins og nú blasir við. Líðan þjóðar þarf að vera þriðji þáttur verkefnis stjórnvalda og mun hafa mikið um það að segja hvernig við höldum áfram til lengri tíma litið.

Latest posts by Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (see all)

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar

Obba hóf að skrifa á Deigluna sumarið 2001.