Lægri hámarkshraði í Heiðmörk

Ein af áherslum nýrrar hámarkshraðaáætlunar Reykjavíkurborgar er að lækka umferðarhraða á útivistarsvæðum, til dæmis í Heiðmörk. Áætlunin var samþykkt með atkvæðum meirihluta borgarstjórnar (mínu þar á meðal) en minnihlutinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru klofin í málinu (líkt og oft þegar kemur að umferðar- og skipulagsmálum). Meirihluti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var þannig á móti en sumir sátu hjá.

Einn varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Guðmundsson, spurði mig sérstaklega á samfélagsmiðlum hvaða „rök dauðans“ væru fyrir því að lækka hámarkshraða í Heiðmörk úr 50 niður í 30 og skal ég glaður aðeins fjalla um þann anga málsins. En fyrst … smá allt of hliðarsaga.

***

Það er auðvitað bölvuð bévitans klisja að bera saman tré og skóga á Íslandi annars vegar og á meginlandi Evrópu hins vegar en það skal óneitanlega viðurkennast að það er klisja sem mótar átta ára barn sem flytur þarna á milli. Í Póllandi bjó ég á útisafni, umkringur trjám og skógi. Hér er mynd af æskuheimilinu.

Ég bjó þar sem rauði hringurinn er á kortinu fyrir neðan. Nóg var að ganga upp brekku bak við húsið til að komast í risastóran skóg þar sem lágu merktar gönguleiðir allt að úkraínsku (þá sóvésku) landamærunum.

Þannig er þetta svæði. Skógar úti um allt. Enda lauk átökum styrjaldarinnar þarna í raun ekki fyrr en á sjötta áratug seinustu aldar þar sem andspyrnuhreyfingar úkraínskra þjóðernissinna höfðu nóg af stöðum til að fela sig á. En það er enn önnur saga.

Auðvitað eru viðbrigði fyrir barn að koma úr svona umhverfi og yfir í umhverfi þar sem stærsti skógurinn á svæðinu er Heiðmörk. En það var ekki bara út af því að trén á gamla staðnum voru hærri og skógurinn stærri. Það snerist líka um „skipulagið“ á skóginum. Þéttleika hans.

Ég man enn vel að mín fyrsta minning af Heiðmörk var hve breiðir og fyrirferðarmiklir vegirnir væru. Að þetta væri í grunninn stórt vegakerfi með trjáreitum inn á milli vega en ekku skógur með vegarslóðum milli trjáa.

Auðvitað er hægt að stjórna þessu. Hér sjáum við til dæmis dæmi um tvo akfæra vegi í skógum í Reykjavík. Ein myndin er frá Heiðmörk og hin nálægt Leirdal í Grafarholti.

Augljóslega munu ökumenn aka veginn vinstra meginn hraðar en þann sem er hægra meginn. Um leið og við lækkum hraðann í Heiðmörk verður kjörið að þrengja vegina. Bæta má við stígum og slóðum fyrir gagnandi. Planta fleiri trjám. Fá meiri skóg í skóginn.

Ég ók þessa vegi í Heiðmörk um daginn. Fannst 35 km hraði eðlilegur, fannst 45 orðið hratt og 50 eiginlega of hratt. En kannski hef ég annan smekk fyrir hraða en Ólafur Guðmundsson. Það kæmi mér raunar ekki á óvart.

En síðan er spurningin sem mig langar að spyrja á móti: „Hvert í dauðanum eru menn eiginlega að flýta sér í Heiðmörk?“ Er einhver sem býr í Heiðmörk sem þar að komast til vinnu í Borgartúnið eða einhver verulegur fjöldi sem býr í Háaleitinu en þarf daglega að ferðast til vinnu sinnar í Heiðmörk og myndi tapa þarna dýrmætum mínútum á hverjum degi?

Varla. Líklegast er eina „góða“ ástæðan til að keyra hratt í Heiðmörk að það sé í einhvers huga afþreying í sjálfu sér að keyra hratt á malavegi, umkringdur trjám. Ég geri ekki lítið úr því að það kunni að vera gaman en Heiðmörk eins og hún er að verða hentar ekki vel til þess. Í bíltúrnum nálgaðist ég í eitt skipti hestamann og fór vel yfir á hinn vegarhelming til að fara fram úr honum. Þá kom bíll á móti mér, úr blindri beygju. Engin hætta skapaðist en ég hefði síður viljað að hefðum báðir verið á, hvað þá yfir, löglegum hámarkshraða.

Rökin fyrir lækkun umferðarhraða í Heiðmörk eru því þau sömu og annars staðar í borginni. Þau snúast um minni hávaða. Þau snúast um að minna ryk þyrlast upp þegar fólk keyrir hægar. Og svo snúast þau um öryggi og öryggistilfinningu. Þegar bílar keyra hægar upplifa gangandi, ríðandi, skíðandi og hjólandi sig öruggari. Þau taka sér meira pláss. Og þá verður allt betra og meira næs í Heiðmörk.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.