Konráð hjá Deiglunni hér

Ég er lögfræðingur og hef þar að auki stundum tilhneigingu til að vera óþarflega nákvæmur. Ég hef þann löst að ég vel frekar vandlega þau tilvik þar sem ég er mjög nákvæmur, en þegar ég fer að hugsa um þau get ég ekki hætt.

Ég er lögfræðingur og hef þar að auki stundum tilhneigingu til að vera óþarflega nákvæmur. Ég hef þann löst að ég vel frekar vandlega þau tilvik þar sem ég er mjög nákvæmur, en þegar ég fer að hugsa um þau get ég ekki hætt. Í anda þessa kvilla míns hefur ákveðin staðreynd verið mér hugleikin og farið næstum því óstjórnlega í taugarnar á mér seinasta árið:

Íslendingar átta sig almennt ekki á því hvað metri er langur.

Hefur einhver einhvern tímann séð hvað einn metri er langur? Hann er bara mjög langur. Reyndu að ímynda þér hvað metri er langur. Margfaldaðu það með tveimur. Það er um það bil einn metri í raun og veru.

Enginn getur sagt mér að það séu tveir metrar á milli þessara ræðupúlta á upplýsingafundunum. Ég gef mér að Víðir Reynisson sé um það bil 1,80 metrar á hæð. Leggjum hann blíðlega á hliðina á gólfið út frá púltinu sem hann stendur jafnan við, í áttina að púltinu hans Þórólfs. Mér þætti augljóst að höfuð hans og axlir ættu eftir að skaga út frá púlti Þórólfs langleiðina að púltinu hennar Ölmu. Því getur einföld sjónskoðun leitt til þeirrar niðurstöðu að það er um það bil einn metri á milli púltanna. Mér gæti auðvitað skjátlast varðandi hæð Víðis (og hinna í þríeykinu) – e.t.v. er hann þrír metrar á hæð. Ef hann er þrír metrar á hæð eru líklegast tveir metrar á milli púltanna.

Ég sé út um eldhúsglugga minn að inngangi Hagkaupa og fæ iðulega kjánahroll yfir því hvað fólk fer nálægt hvert öðru þegar það fer um innganginn. Ég álasa þó engum af því fólki. Mér þykja fyrirmæli yfirvalda um þetta ekki nægilega skýr. Í reglugerðinni sem gildir núna segir:

„Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi […] skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.“

En hver eru nákvæmlega fyrirmæli yfirvalda til almennings um þetta? Ef þau eru að það eigi að halda sig tvo metra frá næsta manni öllum stundum, er ljóst að illmögulegt yrði að fylgja þeim í þaula. Það þyrfti þá bara eina manneskju á ganginum í matvöruversluninni til að stoppa mig. Ég vil auðvitað vera kurteis og vil ekki reka á eftir. Hvað er þá í stöðunni? Höfum við ekki öll lent í þessu — og höfum við ekki öll laumað okkur framhjá? Þarf þá ekki að bæta við nýrri reglu, til viðbótar við tveggja metra regluna? Svonefndri fimm sekúndna reglu, sem myndi vera einhvern veginn á þá leið að það sé í lagi að fara innan tveggja metra frá öðrum einstaklingi, svo lengi sem það feli ekki í sér snertingu og svo lengi sem maður forðar sér út fyrir tveggja metra mörkin innan fimm sekúndna? Í leiðinni mætti jafnvel setja samskiptareglur. Ég kem alltaf út eins og asni ef ég minni á tveggja metra regluna. Hvað um að ég klappi sjálfum mér á kollinn tvisvar til að gefa merki um að ég telji að það sé ekki verið að virða fjarlægðarmörk? Þetta yrði sambærilegt við það að blikka háu ljósunum til að senda skilaboð í bílaumferðinni.

Svo virðist sem það sé annaðhvort landlægur misskilningur um lengd metrans eða sátt ríki í þjóðfélaginu um að fylgja ekki tveggja metra reglunni eins og hún er sett fram með tilmælum yfirvalda. Sama hvort það er, líður mér frekar illa yfir þessu. Nennir einhver að hleypa mér inn á þessa upplýsingafundi? Það brenna nokkrar spurningar á mér.

Latest posts by Konráð Jónsson (see all)