Kæra valdastétt Norður-Kóreu

Kæra valdastétt Norður-Kóreu. Ég er með tilboð handa ykkur. Hættið þessu. Þessu sem þið eruð að gera. Það er ykkur fyrir bestu. Ég er ætla samt að vera hreinskilinn með það að velferð ykkar er mér ekkert sérstaklega ofarlega í huga. Ég er ekki að koma með ráð vegna þess að ég vilji ykkur vel. Ég vil hinum í landinu ykkar vel. En ég er samt með ráð handa ykkur. Hlustið vel.

Þið eruð örugglega svona nokkur þúsund. Þið stjórnið landinu í reynd. Ykkur finnst það eflaust ágætt. Þið lifið örugglega hátt samanborið við aðra í landinu. En þið hafið það eflaust ekkert sérlega gott þannig séð.

Heima hjá mér eru fjórar fartölvur, nokkrir gemsar og spjaldtölvur. Ég heng á netinu þegar mér hentar, borða á veitingastöðum þegar mér sýnist. Ég fer til útlanda oft á ári. Og ég er ekki einu sinni það ríkur samanborið við aðra í landinu mínu. Ég get keypt mér allan fjandan með því að fara út í búð eða bara pikka á takka í tölvunni minni. Og ég þarf aldrei leyfi fyrir því. Ég gæti gengið í merkjavöru og horft á allar þær myndir sem mér sýnist. Ég get það, en ég nenni því ekki.

Staðreyndin er sú að meðalmillistéttarauli í suðrinu hefur það miklu betra en þið. Og þið vitið það eflaust núþegar.

Og hér er mín tillaga. Hættið að vera að vera fátæk valdastétt í súrrealísku alræðisútisafni. Látið þessi pólitísku völd frá ykkur, losið um taumana og breytið ykkur í hefðbunda, semíspillta valdastétt eins og er að finna í flestum lýðræðisríkjum. Veriði verktakar, prófið að eiga símafyrirtæki, braskiði með einhverja sparisjóði, vinniði vegalagningarútboð á hæpnum forsendum, greiðiði ykkur sjálfum óverðskuldaða bónusa. Jájá. Þið yrðuð ekki þeir fyrstu sem færuð þessa leið. En ég mun ekki álása ykkur. Því líf ykkar mun batna. Og líf allra í kringum ykkur mun batna. Ef þið bara hættið þessu rugli.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.