Hvernig stöndum við okkur?

Á einum af fjölmörgum fréttamannafundum þríeykisins sagði Víðir litla ástæðu til að stæra sig af því hversu vel gengi í baráttunni við veiruna. Nú væri ekki tíminn til þess.

Og það var ekki að ástæðulausu sem hann minntist á þetta. Nokkuð hefur verið um það í almennri umræðu að árangur þjóða og jafnvel landsvæða sé borinn saman í baráttunni við COVID-19. Í þeim tilgangi er dregin fram allskyns tölfræði, til dæmis um það hversu hratt faraldurinn breiðist út eða hversu margir látast eða lenda á gjörgæslu. Stundum miðað við höfðatölu og stundum ekki.

Ástæða er til að fara varlega í slíkan samanburð á meðan ekki eru öll kurl komin til grafar í baráttunni við faraldurinn. Þó svo að töluvert hafi verið lagt í rannsóknir á veirunni, hvernig hún stökkbreytist eða smitast á milli fólks, hverjir veikjast og hver áhrif veikindanna verða, eigum við enn langt í land í því að skilja eðli hennar með fullnægjandi hætti.

Óteljandi breytur geta haft áhrif á það hversu vel eða illa samfélög fara út úr þessum faraldri. Bent hefur verið á að einungis hluti smitaðra sýni einkenni og því líklegt að fólk beri með sér sjúkdóminn án þess að gera sér grein fyrir því. Þess vegna er t.d. erfitt að segja til um hversu útbreidd veiran var þegar ríkin gripu til aðgerða. Að auki geta efnahagsaðstæður haft áhrif á möguleg viðbrögð.

Taka þyrfti tillit til fjölmargra atriða í slíkum samanburði. Aldursamsetning, þéttbýli, fyrri bólusetningar, tíðni prófana og undirliggjandi sjúkdómar eru breytur sem gætu t.d. haft áhrif á hann. Þar fyrir utan eru notaðar mismunandi mælingar samanburðarstærða og þær misvel framkvæmdar. Langtímaafleiðingar á heilsu fólks og lífsafkomu eiga síðan alveg eftir að koma í ljós.

Þrátt óvissuna hefur verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða í baráttu við faraldurinn og í samræmi við aðstæður á hverjum stað. Við getum einungis gert kröfu um að þessar afdrifaríku ákvarðanir séu byggðar bestu vitneskju hverju sinni og séu teknar á skynsamlegum forsendum.

Þríeykið okkar virðist vera með hagsmuni samfélagsins alls að leiðarljósi með það fyrir augum að vernda viðkvæma hópa  og tryggja að heilbrigðiskerfið geti sinnt sjúkum.

Þau hafa staðið sig vel í því að framkvæma það sem lagt var upp með: Að fletja út kúfinn og koma daglegu lífi sem fyrst í eðlilegt horf án þess að tefla lífi fólks í tvísýnu. Við berum mikið traust til þeirra og virðast þau fyllilega standa undir því. Við getum svo sannarlega hampað þeim fyrir að taka, að því er virðist, skynsamlegar ákvarðanir í ljósi bestu upplýsinga. Í því samhengi erum við sem þjóð að standa okkur vel.

Önnur ríki horfa jafnvel til okkar í baráttunni við veiruna, ekki síst vegna víðtækra prófana sem virðast vera mikilvæg forsenda þess að komast úr þessu ástandi.

En þangað til að við fáum betri vitneskju um eðli faraldursins, áhrif þess að stöðva stóran hluta samfélagsins og langtíma afleiðingar aðgerðanna, er lítið hægt að segja um hversu vel hafi tekist til þegar uppi er staðið. Hvað þá að bera saman árangur á milli mismunandi svæða eða landa. 

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.