Hugmynd: Hátekjuskattur á sumar, mjög óvinsælar, hátekjur

Ímyndum okkur land. Landið er ríkt. Landið er réttarríki. Landinu finnst að þeir sem séu ríkir eigi að borga háa skatta. Meðallaun í þessu landi eru 1 milljón á ári. En sumir fá miklu meira.

Landið hefur ákveðið að þeir sem séu með 100 milljónir á ári eigi að borga 60 milljónir í skatta. Það er auðvitað slatti. Meira en helmingur, en menn eru samt áfram með 40 milljónir. Landið er búið að ákveða að þetta sé sanngjarnt.

Ástsæll íþróttamaður, Arnar, er á mánaðarlaunum hjá félagi sínu. Hann fær samtals 100 milljónir á ári. Hann borgar 60 milljónir í skatta.

Síðan er ástsæl söngkona, Bára, sem selur fullt af plötum, en plötufyrirtækið borgar henni bara einu sinni á ári. Eitt árið fær hún borgað 100 milljónir. Hvað ætti hún að borga í skatta? Nú, auðvitað 60 milljónir. Allir sammála um það.

Síðan er önnur söngkona, Didda, sem fær líka borgað einu sinni á ári. En hún er ekki lengur ástsæl í landinu eftir að hún fór að beita sér í dýraverndunarmálum. Hún selur áfram plötur í útlöndum og fær borgað 100 milljónir. Hún borgar 60 milljónir í skatta. Þótt hún sé ekki ástsæl. Auðvitað. Landið er réttarríki.

Síðan það Einar, forstjóri olíufélags. Enginn fílar hann. Enginn hatar hann. Stjórnin félagsins ákveður að borga honum 100 milljónir á ári. Sumum neytendum finnst það mikið. Þeir fara að versla við annað fyrirtæki. Það er sjálfsagt. En landið sjálft aðhefst auðvitað ekkert. Það bara hirðir af honum 60 milljónir í formi skatta.

Freyja vinnur hjá nýsköpunarfyrirtæki, á lúsarlaunum. Fyrirtækið nær stórum samningi og allir starfsmenn fá risastóra bónusa. Freyja fær 100 milljónir fyrir það ár enda var hún lykilkona við gerð þessa samnings. Fólkinu í landinu finnst þetta flott hjá henni. En landinu er sama. Það bara hirðir af henni 60 milljónir.

Síðan er Gunnar forstjóri innheimtufyrirækis sem ber út gamalt fólk. Allir í landinu hata hann. En viðskiptin ganga vel og hann getur borgað sér 100 milljónir á ári í einni greiðslu. Landið reynir að setja lög um starfsemina. En þegar kemur að skattinum tekur það bara af honum 60 milljónir. Því þannig eru lögin.

Það er mjög hæpið að réttlæta að misdreifð laun ættu að bera einhverja aðra skattprósentu en jafndreifð. Hvað þá að skatturinn ætti að fara eftir vinsældum hvers og eins eða eðli þess reksturs sem hann er í.

Vissulega getur komið upp sú staða að menn fara að fá 1000 milljónir og það veldur því að landið ákveður að breyta skattkerfinu sínu og láta fólk með svona há laun borga enn hærri skatta í framtíðinni. Það bara önnur umræða. En við getum ekki skattlagt hverja millifærslu eftir á byggt á því hvaða tilfinningar hún vekur í hjörtum fólks.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.