Ferðalög eru fín og við þurfum ekki að hætta þeim

Það eru varla margar dýrategundir sem ferðast sér til skemmtunar. Karlapi sem vill slappa af fer varla að kíkja yfir á yfirráðasvæði annars karlapa. Það væri galið. Að sama skapi eru ferðalög í afþreyingarskyni tiltöluleg nýleg uppfinning hjá mannfólkinu. Höfðingjar forðum byggðu upp hallir og fylltu þær allsnægtum en fóru ekki í sjálfskipaðar heimsreisur til að „finna sjálfa sig“.

Á þennan hátt má reyndar segja að þættirnir Tiger King sem notið hafa mikilla vinsælda sýna einmitt þetta gamla ríkidæmi í sýnu einföldustu mynd. Í þeim þáttum búa menn á stórum jörðum sem þeir verja með vopnum, hafa örheri misviljugra hjálpara sér til aðstoðar og fleiri maka en venja er nú til dags. Þessir menn mæla ríkidæmi sitt í jarðeignum og kynlífi, ekki fjölda landa sem þeir hafa heimsótt.

Auðvitað má segja að þörfin til að ferðast í afþreyingarskyni sé fullkomlega tilbúin. Og það er rétt. Rétt eins og svo margar aðrar þarfir mannfólks eru það. Til dæmis þörfin til að eiga spjaldtölvu, borða ekki korn eða synda í köldum sjó. En það er samt gaman að ferðast. Og það er gott að fólk ferðist og öðrum. Það er bara mjög verðmætt og eitt af því mennskasta og mest upplýsta sem við gerum.

Það var búið að kynda upp í þeirri stemningu að ferðalög væru slæm af umhverfisástæðum. Og nú verður því haldið fram að þau séu skaðleg heilsu okkar og lífi. Og að það sé göfugt að fækka þeim til muna.

Það er sjálfsagt að finna leiðir til að gera ferðalög umhverfisvænni. Það er sjálfsagt að finna leiðir til að draga úr smithættu í faraldri eins og þeim sem nú stendur yfir. Þetta er bara spurning um lausnir og forgangsröðun. En það væri hvorki gaman né gott ef við þyrftum að hætta að ferðast. Og við eigum ekki að stefna að því.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.