En að senda fólk til Venusar?

Úti er þægilegur 30 stiga hiti. Loftið er þunnt, eins og á nokkur þúsund metra háu fjalli, um 500 hPa. Fallegur appelsínugulur himinn allan sjóndeildarhringinn. Sólin skín skært. Tunglið er hvergi sjáanlegt.

Við erum á Venus. Í 55 kílómetra hæð yfir yfirborði plánetunnar. Svífum um í glærri kúlu. Við getum hallað okkur að glærum veggjunum og horft á skýin fyrir neðan okkur. Ef við færum út þyrftum við vissulega súrefni með okkur, en að öðru leyfi værum við góð. Engir búningar á borð við þá sem tunglfararnir þurftu að troða sér í.

Þyngdaraflið er 0,9g eða 90% af því sem við höfum að venjast á Jörðinni. Munurinn finnst, en þetta er ekkert sem við höfum ekki upplifað í sundi, flugvél eða lyftu. Eiginlega eins og að missa nokkur kíló.

Engin vélahljóð trufla kyrrðina. Engir þotuhreyflar. Háloftavindarnir bera okkur í kringum hnöttinn. Við tökum einn hring á um það bil 4 dögum. Við upplifum því til skiptis 2 daga nótt og tveggja daga dag. Sem er skrýtið en, samt ekki svo. Sumsstaðar á jörðinni er dimmt marga mánuði ársins og svo bjart jafnlengi.

Einhver sagði einhvern tímann um Feneyjar að það eina sem væri stórfenglegra en byggja borg á vatni væri að byggja borg á himnum. Hið magnaða er að það er eðlisfræðilega geranlegt. Á Venus. Kannski eigum við að líta þangað fremur en Mars.

Þótt Mars heilli marga draumóramenn eru aðstæður þar snúnar fyrir mannkynið. Minni birta, lítið andrúmsloft eftir, meiri kuldi og mun minna þyngdarafl. Í háloftum Venusar er hins vegar að finna umhverfi sem svipar einna mest til jarðarinnar af öllum stöðum í sólkerfinu.

Tilraunir okkar til að komast til að heimsækja Venus hingað til hafa flaskað á þeirri þvermóðsku okkar að vilja komast niður á yfirborð hennar. Við vitum nú að þar bíður okkar ekkert nema dauði og djöfull. En kannski ættu mannaðar ferðir upp í lofthjúp Venusar að vera næsta stóra verkefni mannkyns?

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.