Loksins, loksins. Fagleg ráðning í Seðlabankann

Síðastliðinn fimmtudag tilkynnti Geir Haarde, forsætisráðherra, um skipun Ingimundar Friðrikssonar, aðstoðarbankastjóra Seðlabankans, í stöðu Seðlabankastjóra til 7 ára. Þetta verða að teljast stórtíðindi. Þetta er í fyrsta skipti í meira en áratug sem fagmaður hefur verið ráðinn í stöðu Seðlabankastjóra. Geir Haarde á mikið hrós skilið fyrir að hafa vikið frá þeirri venju að ráða gamla stjórnmálamenn í Seðlabankann.

Síðastliðinn fimmtudag tilkynnti Geir Haarde, forsætisráðherra, um skipun Ingimundar Friðrikssonar, aðstoðarbankastjóra Seðlabankans, í stöðu Seðlabankastjóra til 7 ára. Þetta verða að teljast stórtíðindi. Þetta er í fyrsta skipti í meira en áratug sem fagmaður hefur verið ráðinn í stöðu Seðlabankastjóra. Geir Haarde á mikið hrós skilið fyrir að hafa vikið frá þeirri venju að ráða gamla stjórnmálamenn í Seðlabankann.

Mikilvægi Seðlabankans hefur aukist verulega á síðustu 20 árum vegna aukinnar markaðsvæðingar fjármálakerfisins. Á þessum tíma hafa vextir verið gefnir frjálsir, fjármagnsflutningar til og frá landinu hafa verið gefnir frjálsir, bankarnir hafa verið einkavæddir og gengi krónunnar hefur verið leyft að ráðast af markaðaðstæðum. Nú er framkvæmd peningamálastefnu stjórnvalda komin í sama farveg og í þeim löndum sem fremst standa í þeim efnum. Við þessar breyttu aðstæður var orðið pínlegt að staða Seðlabankastjóra væri ekki tekin alvarlegar en svo að hún væri notuð sem bitlingur fyrir fyrrverandi stjórnmálamenn.

Ingimundur er klárlega á meðal hæfustu manna landsins til þess að gegna stöðu Seðlabankastjóra. Hann hefur masterspróf í hagfræði. Hann hefur unnið hjá Seðlabankanum mest allan sinn starfsferil og verið aðstoðarbankastjóri síðan 1994. Hann hefur setið fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Og það fer gott orð af störfum hans.

Nú er liðinn rúmur hálfur mánuður síðan Geir Haarde varð forsætisráðherra. Á þessum tíma hefur hann tekið tvær virkilega markverðar ákvarðanir sem nánast ekkert fór fyrir í fjölmiðlum. Sú fyrri var að verðtryggja persónuafsláttinn. Þessi ákvörðun mun þegar fram líða stundir hafa mun meiri áhrif en hækkunin á persónuafslættinum sem ákveðin var samtímis verðtryggingunni. Sú síðari var að hverfa frá bitlingpólitík forverra sinna þegar kemur að ráðningu Seðlabankastjóra.

Með þessu heldur Geir áfram á sömu braut og hann hefur alltaf verið. Það hefur einkennt stjórmálaferil Geirs að hann hefur komið í framkvæmd miklum framfaramálum án þess að mikið færi fyrir því og þótt þau væru ekki málin sem myndu best þjóna pólitískum skammtahagsmunum hans. Mikilvæg dæmi um slíkar ákvarðanir úr fjármálaráðherratíð Geirs er sú ákvörðun að setja fjárlög á rekstrargrunn og sú ákvörðun að leggja tugi milljarða til hliðar í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins á síðustu 8 árum. Það er auðvelt að skilja af hverju Geir nýtur jafn mikils trausts og skoðanakannanir gefa til kynna þegar horft er yfir verk hans á síðustu vikum og árum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.