Mömmugildra Framsóknar

Framsóknarmenn lofuðu lausnum á vanda foreldra ungra barna með dagvistun. Lofuðu þeir 50 þúsund króna greiðslum á mánuði. Er þessi hugmynd frábær eða gamaldags?

Fyrir nýliðnar sveitarstjórnarkosningar lofuðu Framsóknarmenn í Reykjavík öllu fögru til að koma sínum manni að í borgarstjórn Reykjavíkur. Eitt helsta vandamál foreldra ungra barna hefru verið að finna dagvistun fyrir börn sín frá því að fæðingarorlofi foreldra lýkur þar til að börnin fá inn á leikskóla. Framsókn viðurkenndi þennan vanda og bauð fram lausn í málinu þar til að framtíðarsýn þeirra um að öll börn fengju inni á leikskóla um eins árs aldur.

Lausnin þeirra fólst í að greiða foreldrum 50 þúsund króna greiðslu á mánuði frá 9 mánaða aldri barns þar til að barnið kæmist á leikskóla sem í dag er á bilinu 18- 24 mánaða. Þessa greiðslu gætu foreldrar nýtt til að vera lengur heima hjá barninu, látið það renna til ættingja sem gæta barnsins eða greiðsla til dagforeldra.

Við fyrstu sýn lítur þetta út fyrir að vera frábær hugmynd, kostnaðarsöm en góð. Mjög fjölskylduvæn hugmynd því að foreldrar gætu verið lengur heima hjá barninu eða hjá nákomnum ættingja. En er þessi hugmynd frábær fyrir alla? Nei, alls kostar ekki. Því miður er það þannig að loknu 9 mánaða fæðingarorlofi þegar enga dagvistun fyrir barnið er að fá eru það mæður í miklum meirihluta sem taka ábyrgð á börnunum.

Móðirin bakkar með sitt til að gæta bús og barna. Starfsferill kvenna situr á hakanum í mun lengri tíma en karla á barneignaraldri. Því er eðlilegt að þær hækki ekki eins hratt í launum vegna þess fjarvera þeirra vegna barneigna er mun meiri en ella. Atvinnumöguleikar kvenna á barneignaraldri minnka sökum ótta við að þær hverfi í lengri tíma af vinnumarkaði.

Katrín Anna Guðmundsdóttir pistlahöfundur á Viðskiptablaðinu benti á þetta nýlega í pistli sínum og kallar þetta mömmugildru (e. Mommy trap). Mömmugildra er kerfi sem leiðir til þess að konur vinna minna en karlar og er þannig viðhaldið ábyrgð kvenna á uppeldi barna og heimilsstörfum.

Þessi lausn framsóknarmanna á dagvistunarmálum barna áður en þau komast inn á leikskóla er ekki frábær heldur gamaldags og léleg. Hún, því miður, bindur konur enn frekar við heimilið og er stórt skref aftur á bak í jafnréttisbaráttu kvenna.

Ég skora á Sjálfstæðismenn í borgarstjórn, sem loksins eru komnir í meirihluta, að samþykkja ekki þessa hugmynd framsóknarmanna. Þess í stað skal finna varanlegar lausnir á dagvistunarvanda barna frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til að barnið kemst inn á leikskóla. Þá geta konur sjálfar leyst sín mál eins og þeim þykir best- sumar kjósa að vera áfram heima hjá börnum sínum sem er frábært enda er það þeirra val.

Latest posts by Rúna Malmquist (see all)