Ókeypis heilbrigðiskerfi

Þeir sem halda að peningamokstur geti leyst vanda heilbrigðiskerfisins eru nokkurn vegin jafn glórulausir og maður sem er með slitin liðbönd og heldur að verkjalyf geti læknað hann.

Á Íslandi er stærstur hluti heilbrigðiskerfisins fjármagnaður af ríkinu og því er stór hluti þeirrar heilbrigðisþjónustu sem við Íslendingar sækjum okkur ókeypis eða því sem næst ókeypis frá okkar bæjardyrum séð. Það ætti því ekki að koma á óvart að eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu er gríðarlega mikil á Íslandi, langt umfram það sem hún væri ef þeir sem fá þjónustuna þyrftu að borga fyrir hana.

Stjórnvöld með einhverja glóru í kollinum átta sig á því að ekki er hægt að bjóða upp á ókeypis heilbrigðisþjónustu algerlega án takmarkana. Það myndi leiða til þess að þjóðin eyddi allt of miklu í heilbrigðismál.

Íslenska ríkið hefur á undanförnum árum tæklað þetta vandamál með því að skammta spítölunum í Reykjavík fé þannig að þeir geta ekki veitt alla þá þjónustu sem landsmenn óska eftir. Langir biðlistar og lokanir deila, sem stundum leiða til þess að fólk þarf að hafast við á göngum sjúkrahúsana, eru þær afleiðingar þessarar stefnu sem eru mest áberandi út á við.

Þessi skömmtunarstefna stjórnvalda er vitaskuld afleit. Stefna stjórnvalda ætti að miðast við að greina á milli þeirra læknaverka sem skynsamlegt er að framkvæma og þeirra sem ekki er skynsamlegt að framkvæma. Það ættu að vera litlir sem engir biðlistar í þau læknaverk sem skynsamlegt er að gera. Aðhaldsstefna stjórnvalda ætti hins vegar að ganga út á framkvæma ekki þau læknaverk þar sem ábatinn hvað heilsu varðar er minni en kostnaðurinn sem hlýst af verkinu.

Það er því alls ekki rétt sem oft er haldið fram að lausnin á biðlistavandanum sé auðveld og að hún felist í því að ausa meiru fé í heilbrigðiskerfið án þess að setja eftirspurninni nokkrar skorður. Þessi svokallaða lausn leysir vitaskuld ekki vandann heldur slær einungis á sum einkennin hans. Þeir sem halda að peningamokstur geti leyst vanda heilbrigðiskerfisins eru nokkurn vegin jafn glórulausir og maður sem er með slitin liðbönd og heldur að verkjalyf geti læknað hann.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.