Sjálfboðaliðið

Allir sem stuðst hafa við sjálfboðavinnu til koma einhverju í verk vita að það reynir oft á taugarnar. Þrátt fyrir fögur loforð um annað eru nefnilega ekki margir sem til eru í að gera eitthvað fyrir ekki neitt.

Allir sem stuðst hafa við sjálfboðavinnu til koma einhverju í verk vita að það reynir oft á taugarnar. Þrátt fyrir fögur loforð um annað eru nefnilega ekki margir sem til eru í að gera eitthvað fyrir ekki neitt.

Ég bý á stóru dönsku kollegí í suðurhluta Kaupmannahafnar. Þar er allt til alls: tónlistarherbergi, bar, líkamsræktarstöð og pizzustaður. Það er skemmtilegt að bera saman rekstur pizzustaðarins annars vegar og líkamsræktarstöðvarinnar hins vegar. Kúrdarnir sem dæla flatbökum ofan í stúdentana eru einfaldalega að reka fyrirtæki. Pizzurnar þeirra eru kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir og kebabinn þeirra kannski ekkert sérstaklega ódýr, en þjónustulundin er góð og auðvitað er alltaf opið á þeim tímum sem það á að vera opið. Enda væri annað fásinna í hverfi þar sem skyndibita má fá í hverju húsi.

Svolítið aðra sögu er að segja af líkamsræktarstöðinni. Hún er opin tvo tíma á morgnana og nokkra á kvöldin, þó minna á föstudögum og um helgar. Mesti vandinn er hins vegar sá, hve illa það gengur oft að halda úti þeim strjálu opnunartímum sem þó eiga vera. Ástæðan er sú að stöðinni er eingöngu haldið uppi af sjálfboðaliðum, fólki sem vaktar svæðið í nokkra tíma í senn gegn því að fá að æfa þar á öðrum tímum.

Kosturinn við þetta kerfi er að mánaðarkort eru afar ódýr (undir 1000 kr. íslenskar) enda launakostnaður enginn. Hins vegar lendir maður oftar en ekki í því að standa að standa eins og hálfviti í jogginggalla fyrir utan stöðina og lesa á handskrifaðan miða tilkynningu um að í dag verði fyrst opnað eftir kvöldmat vegna sjúkdóm. „Æði,“ hugsar maður, „ég afhita þá bara upp og reyni aftur á morgun.“ Það er svo önnur saga hve oft þessi sjúkdómafaraldrar virðast geisa seint á föstudögum og um helgar.

Vandinn er sá að í sjálfboðakerfi er hvatinn til að halda batteríinu gangandi lítill. Það er til dæmis engin ástæða fyrir neinn að taka vakt fyrir einhvern annan, þegar hann sjálfur hefur staðist sínar skuldbindingar. Einnig þarf mun fleiri til að manna vaktir en ef um fyrirtæki væri að ræða. Án fjárhagslegrar umbunar er fólk ólíklegt til að vinna í marga klukkutíma í viku hverri. Allavega í lengri tíma.

Auðvitað geta sjálfboðakerfi líka gengið vel. Það er oftast háð því að einhverjir einstaklingar innanborðs séu tilbúnir að taka meiri ábyrgð en aðrir. Þetta geta til dæmis verið stofnendur fyrirbæranna eða aðrir aðilar sem hafa metnað til að hefja þau til vegs og virðingar.

Rekstur sjálfboðakerfa á það þannig til að vera mjög sveiflukenndur. Þegar illa gengur reyna menn að koma á einhverjum nýjum umbunar- eða refsikerfum til að halda „þrælunum“ við efnið. Þetta var til dæmis gert á gimminu mínu núna stuttu eftir jól, þegar farið var að áminna fólk og svo reka ef það forfallaðist með stuttum eða engum fyrirvara. Staðan batnaði aðeins en var fljót að fara aftur í sama farið aftur. Að sumu leiti vegna þess að góður árangur gerir menn kærulausari en svo tekur það auðvitað líka mjög á taugar agameistaranna að vera með endalaus leiðindi við fólk sem er, þannig séð, að gera þeim greiða.

Í tímans rás hefur margt gott verið framkvæmt með því að láta fólk gefa vinnu sína. Sumir virðast halda að leysa megi allan fjandann með umræddu rekstrarformi og gleyma að oftar en ekki kemur þetta niður á áreiðanleikanum. Sjálfur væri ég vel til í að borga mun meira fyrir aðgang að líkamsræktarstöðinni minni ef hún yrði þá jafnáreiðanleg og pizzustaðurinn sem hleður á mann öllum aukakílóunum.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.