Nú er m-ál að linni

Í kvöldfréttum á mánudagskvöld var greint frá því að Landsvirkjun væri komin í viðræður við Alcan um stækkun á álverinu í Straumsvík. Í fréttinni var jafnframt rætt við bæjarstjóra Akureyrarbæjar sem taldi að „röðin“ hefði verið komin að þeim og að næsta stóriðjuframkvæmd ætti að vera á Norðurlandi. Hver gaf Landsvirkjun eiginlega umboð til þess að fara í þessar viðræður og hvaðan á orkan að koma? Hvernig fékk bæjarstjóri Akureyrar þá flugu í höfuðið að það væri einhver „röð“ um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi? Þetta er arfavitlaus umræða og nú er m-ál að linni.

NámugröfturÍ kvöldfréttum á mánudagskvöld var greint frá því að Landsvirkjun væri komin í viðræður við Alcan um stækkun á álverinu í Straumsvík. Í fréttinni var jafnframt rætt við bæjarstjóra Akureyrarbæjar sem taldi að „röðin“ hefði verið komin að þeim og að næsta stóriðjuframkvæmd ætti að vera á Norðurlandi. Hver gaf Landsvirkjun eiginlega umboð til þess að fara í þessar viðræður og hvaðan á orkan að koma? Hvernig fékk bæjarstjóri Akureyrar þá flugu í höfuðið að það væri einhver „röð“ um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi? Þetta er arfavitlaus umræða og nú er m-ál að linni.

„Röðin“ er ekki komin að Norðlendingum og „röðin“ var heldur ekki komin að Austfirðingum, ef út í það er farið. Það er engin „röð“ til og ef það væri einhver röð væri röðin komin að kjósendum. Þorri almennings í landinu hefur ekki áhuga á fleiri virkjunum og frumstæðum hráefnisframleiðsluúrlausnum stjórnvalda. Þróuðustu þjóðir heims veðja nú á hátækniiðnað til varnar samkeppnisstöðu sinni í alþjóðavæðingunni en framsýn íslensk stjórnvöld feta í fótspor þróunarríkja og veðja á iðnvæðingu.

Álframleiðsla er hráefnisframleiðsla og mætti helst líkja við námugröft. Á Íslandi er nánast ekkert búið til úr öllu því áli sem hér er framleitt heldur er það flutt erlendis í stórum (ódýrum) bitum. Það eru síðan einhver önnur lönd, með skynsamari stefnu, sem breyta álibitunum í verðmæti með því að smíða úr því flugvélar, bíla, tölvur eða jafnvel demanta. Eina skynsemin í því að flytja súrál alla leiðina frá Ástralíu til Íslands og bræða það í ál er að hér eru stjórnvöld á villigötum. Ástæðan er ekki sú að hér sé ódýr orka, það er misskilningur, ástæðan er einungis sú að hér eru stjórnvöld tilbúin til þess að verðleggja orkuna fyrir neðan kostnaðarverð vegna sérhagsmuna. Á Íslandi er orkukverð til álvera ekki reiknað út miðað við mögulegan orkuskort í framtíðinni og þau umhverfis- og þjóðfélagslegu áhrif sem virkjanirnar hafa. Þá mætti einnig halda fram að heimilin í landinu niðugreiði orkuverð til álvera.

Það er kominn tími til að ríkisstjórnin hætti ríkisstyrktum kommúnískum atvinnuþróunarverkefnum og leyfi viðskiptalífinu að ganga sinn gang. Pistlahöfundur trúir því ekki í eina mínútu að eðlileg ávöxtunarkrafa sé sétt á kílówattstundina í viðræðum við álfyrirtækin og að pólitískur afsláttur sé iðulega gefinn til þess að hlúa að kjördæmishagsmunum. Skammt er síðan umræða átti sér stað í þjóðfélaginu um arðsemi eða arðsemisleysi Kárahnjúkavirkjunnar. Þar að auki er alltaf að koma betur og betur í ljós að við höfum takmarkað magn af virkjanlegri orku vegna aukinna krafna um umhverfismál, eins og umræðan um Norðlingaölduveitu ber vitni um. Auðnýtanlega orku má ekki binda í langtímasamningum við hráefnisframleiðendur, það kemur nður á velferð þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Á Íslandi er nákvæmlega ekkert atvinnuleysi um þessar mundir og skortur á starfsfólki hefur sett af stað launaskrið og útflutningsgreinarnar er að sligast undan sterkri krónu. Viðræður um frekari álvæðingu eru sem olía á eldinn og sennilega eitt það vitlausasta sem við getum gert um þessar mundir. Pistlahöfundur hélt að fyrr myndi frjósa í neðra áður en hann yrði sammála málflutningi Vinstri grænna, en nú hefur það gerst. Ekki er hægt annað en að vera sammála ályktun flokksins um viðræður Landsvirkjunnar við Alcan, sjá ályktunina.

Til þess að tryggja að Íslandi haldi áfram að raða sér í röð ríkustu þjóða heims þarf að skapa hátækniiðnaði hagkvæm rekstrarskilyrði, en ekki álverum. Iðnvæðingunni er lokið og hátæknivæðing að hefjast. Stjórnvöld verða að fara að átta sig á þessu.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)