Loksins jöfn réttarstaða

Það er tilefni til að fagna, því að í gær kynnti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra löngu tímabært frumvarp, frumvarp um jafna réttarstöðu samkynhneigðra.

Það er tilefni til að fagna, því að í gær kynnti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra löngu tímabært frumvarp, frumvarp um jafna réttarstöðu samkynhneigðra. Nú er ár liðið síðan að nefnd á vegum forsætisráðuneytisins lauk störfum um málið. Þegar þetta frumvarp verður að lögum mun það fleyta okkur aftur í forystu um málefni samkynhneigðra í heiminum.

Við höfðum verið framarlega þegar við samþykktum lög um staðfesta samvist 1996 en síðan þá höfum við dregist aftur úr og er skemmst að minnast að Spánverjar samþykktu sl. sumar að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra. En hvað færir frumvarpið samkynhneigðum og er eitthvað eftir til að jafna að fullu réttindi samkynhneigðra til jafns við gagnkynhneigða?

Nú geta samkynhneigðir skráð sig í óvígða sambúð en með því sambúðarformi njóta sambúðaraðilar ýmislegra réttinda sem þeir nytu ekki annars. Það er til dæmis réttindi er varða almannatrygginga, lífeyrisréttindi, skattaleg meðferð tekna og eigna og skipti dánarbúa. Samkynhneigðir höfðu ekki getað skráð sig í óvígða sambúð og má reyndar segja að í raun og veru hafi eina ástæða þess verið að fulltrúar yfirvalda hafi verið hræddir um að gagnkynhneigðir einstaklingar myndu skrá sig í sambúð til að njóta þessara réttinda. En eins og alþjóð veit þá hefur það frekar verið talið að það sé fjárhagslega óhagstæðara að skrá sig í sambúð heldur en ekki.

Í kjölfar laganna munu samkynhneigðum pörum vera heimilt að ættleiða börn á jafns við gagnkynhneigðra en áfram verður þó metið hverju sinni út frá hagsmunum barnsins hvort að leyfi fáist til ættleiðingar. Á undanförnum árum hafa íslenskar lesbíur leitað, með tilheyrandi kostnaði, til Danmerkur til að gangast undir tæknifrjóvgun með gjafasæði. Með lögunum fá lesbíur í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist heimild til að gangast undir tæknifrjóvgun hér á landi. Þetta mun breyta miklu peningalega fyrir þær og gefa þeim aukin tækifæri á að stofna fjölskyldu.

Einnig eru tekin af tvímæli með töku fæðingarorlofs samkynhneigðra para í sambúð eða staðfestri samvist. Síðan að lög um fæðingarorlof tóku gildi hefur verið misbrestur á hvort að konur í staðfestri samvist sem ekki hafa gengið með börnin en börnin fæðst í staðfestri samvist hafi fengið að taka fæðingarorlof til að annast börn sín rétt eins og feður fá samkvæmt lögunum.

Það eina sem stendur í raun og veru eftir til að setja Ísland í forystu í málefnum samkynhneigðra og í raun og veru myndi setja lokapunktinn í réttindabaráttu samkynhneigðra hér á landi að því sem lýtur að lögum væri ef trúfélögum væri leyft að staðfesta samvist samkynhneigðra. En er þó ekki útséð með lokaniðurstöðu og vonast forystumenn samkynhneigðra á Íslandi að þetta komi inn í frumvarpið í meðferð þingsins og að sjálfsögðu að ekkert annað falli út.

Það verður mikill gleðidagur hjá samkynhneigðum þegar þessi lög verða staðfest og ekki einungis hjá samkynhneigðum Íslendingum heldur öllum Íslendingum því að þessi lög munu gleðja vini okkar og ættingja.

Latest posts by Rúna Malmquist (see all)