Stefna Sjálfstæðisflokksins í landbúnaðarmálum er flokknum til skammar

Á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt skýr stefna í landbúnðaramálum sem miðast algerlega við hagsmuni framleiðenda og virðir að vettugi hagsmuni neytenda og skattgreiðenda. Þessi landbúnaðarstefna er í hrópandi ósamræmi við flest annað í stefnu flokksins.

Á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins samþykkti flokkurinn skýra stefnu í landbúnaðarmálum. Stefna flokksins gengur út á það að “nýta til fulls þá möguleika sem felast í landbúnaðinum til bættra lífskjara fyrir fólkið sem við hann starfar”. Stefnan miðast með öðrum orðum algerlega við hagsmuni framleiðenda og virðir algerlega að vettugi hagsmuni neytenda og skattgreiðenda.

Hvergi í landsfundarályktuninni er fjallað um óhagræðið sem orsakast af innflutningshöftum. Hvergi er gerð athugasemd við það að framleiðslustyrkir í landbúnaði eru ríflega 8 ma.kr. ár hvert. Grundvallaratriðin í stefnu flokksins á öðrum sviðum virðast algerlega gleymd og grafin þegar kemur að landbúnaðarmálum. Af hverju eiga hugmyndir um frjálsa samkeppni, takmörkuð ríkisafskipti, frjáls viðskipti við útlönd og lækkun ríkisútgjalda ekki við í landbúnaðarmálum?

Í stað þess að leggja áherslu á þessi atriði er ályktun flokksins í landbúnaðarmálum uppfull af alls kyns froðu eins og til dæmis:

“Athuga þarf sérstaklega hvort breytt viðhorf í umhverfismálum og hertar reglur um eyðingu úrgangs skapi möguleika á arðbærri nýtingu sláturúrgangs í meira mæli en nú er.”

“Nauðsynlegt er að bæta samkeppnisstöðu blómabænda.”

“Línrækt er ný búgrein, sem getur átt framtíð fyrir sér hér á landi en þarf að styðja við í upphafi.”

“Hrossarækt og hestamennska er vaxandi þáttur í íslenskum landbúnaði, sem eflir ferðaþjónustuna og styrkir tengsl milli þéttbýlis og sveita. Leggja ber áherslu á aukið markaðsstarf, bæði innanlands og utan, m.a. með því að kynna fjölhæfni hestsins og fleiri nýtingarmöguleika, svo sem við endurhæfingu fatlaðra.”

Þegar landbúnaðarmál ber á góma eru frjálslyndir Sjálfstæðimenn oft fljótir að kenna Framsóknarflokknum um það fullkomna afturhald sem einkennt hefur stefnu ríkisstjórna flokksins í landbúnaðarmálum síðasta áratuginn. En yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins í landbúnaðarmálum er litlu betri en yfirlýst stefna Framsóknarflokksins. Í raun gengur ekki hnífurinn á milli flokkanna í þessum málaflokki. Sjálfstæðisflokkurinn á því jafn mikla sök á afturhaldinu og Framsóknarflokkurinn.

Landsfundarályktun Sjálfstæðiflokksins í landbúnaðarmálum er svartur blettur á stefnu flokksins sem er í hrópandi ósamræmi við flest annað í stefnu flokksins. Það er vonandi að flokkurinn taki þessa stefnu til endurskoðunar fyrir næsta landsfund.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.