Af hverju má ég ekki vera með?

Mörg leikskólabörn í borginni sitja heima þessa dagana vegna manneklu á leikskólum borgarinnar. Á leikskólanum Austurborg þar sem ég þekki til eru öll börnin heima tæplega einu sinni í viku og fyrirkomulagið mun vera svoleiðis áfram uns hægt er að ráða í þau 5 stöðugildi sem upp á vantar.

Mörg leikskólabörn í borginni sitja heima þessa dagana vegna manneklu á leikskólum borgarinnar. Á leikskólanum Austurborg þar sem ég þekki til eru öll börnin heima tæplega einu sinni í viku og fyrirkomulagið mun vera svoleiðis áfram uns hægt er að ráða í þau 5 stöðugildi sem upp á vantar.

En hverjum er að kenna og hvað eru borgaryfirvöld að gera til að leysa þennan vanda yngstu borgarbúanna? Borgaryfirvöld hafa kastað í leikskólastjórana fjármagni til að greiða fyrir yfirvinnu þeirra starfsmanna sem fyrir eru og fást til að vinna yfirvinnu. Lausnin er að níðast á þeim starfsmönnum sem fyrir eru. Starfsmönnnum sem hafa í gegnum árin þurft að bjarga málum fyrir borgaryfirvöld. Borgarstjórinn sagði að það vantaði 100 leiðbeinendur á leikskólana til að leysa vandann. Leiðbeinendur en ekki leikskólakennara. Leikskóli er fyrsta skólastigið og því ætti að vanta 100 leikskólakennara en ekki 100 leiðbeinendur. Borgarstjóri vor virðist líta á leikskóla sem gæslu en ekki sem fyrsta menntunarstigið. En skv. lögum um leikskóla er þetta fyrsta menntunarstigið. Borgaryfirvöld tala um og hrósa sér að því að biðlistinn styttist í hverri viku. Er biðlistinn eina áhyggjuefni borgaryfirvalda? Af hverju ekki að halda biðlista og þjónusta þau börn sem fyrir eru? Hvað er það til gagns að senda börn inn á leikskóla sem geta ekki veitt fulla þjónustu sökum manneklu?

En hvað er til ráða? Í fyrsta lagi þarf að greiða því starfsfólki sem gæta barnanna okkar og leiðbeina mannsæmandi laun. Nýráðnir leiðbeinendur fá 112 þúsund krónur í byrjunarlaun. Leikskólakennari í stjórnunarstöðu með 30 ára starfsreynslu fær 245 þúsund krónur á mánuði. Þetta er ekki til að státa sig að. Í öðru lagi þurfa borgaryfirvöld að vera opnari fyrir nýjum leiðum. Leyfa börnum að vera lengur hjá dagmæðrum og skapa dagmæðrum vinnufrið í tengslum við störf sín. Vera opin fyrir einkarekstri leikskóla, þó að í borginni séu einkareknir leikskólar þá er það ekki óskastaða borgaryfirvalda. Láta greiðslu fylgja hverju barni og leyfa foreldrum að ráð hvernig þeirri fjárhæð er varið. Í þriðja lagi þarf að aðlaga Kennaraháskóla Íslands(KHÍ) að þjóðfélaginu og útskrifa fleiri leikskólakennara á ári heldur en nú er gert. Í dag er einungis einn bekkur leikskólakennara í árgangi eða um 30 nemendur. KHÍ hafnar umsóknum um skólavist í leikskólakennaranám.

Af hverju má ég ekki vera með á leikskólanum í dag spyrja börnin okkur. Borgaryfirvöld, hverju eigum við að svara börnum okkar?

Latest posts by Rúna Malmquist (see all)