Án bindis á Alþingi

Í vikunni gerðist fáheyrður atburður á Alþingi. Flutt var –að því fróðir menn telja-fyrsta bindislausa ræðan í þinginu meðan á umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra stóð.

Panama-Pink litt bindi fer vel á þingmönnum.

Í vikunni gerðist fáheyrður atburður á Alþingi. Flutt var –að því fróðir menn telja-fyrsta bindislausa ræðan í þinginu meðan á umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra stóð.

Varaþingmaður Vinstri grænna Hlynur Hallson að nafni talaði úr ræðustól Alþingis og það bindislaus. Ekki með slaufu og ekki með bindi.

Sérstaklega var greint frá þessu í fjölmiðlum að slíkt bryti í bága við hefðir þingsins. Hlýtur að teljast morgunljóst að slíkt er þjóðþrifamál og þarft að fjalla um. Lítt var hins vegar fjallað og yfirborðskennt um ástæður þessa.

Helgarnestið hefur því miður ekki komist yfir tölvupósta sem varpað gætu ljósi á þetta álitaefni, en ætlar sér samt að komast að hinu sanna. Hver var ástæðan fyrir þessu?

Helgarnestinu er hugleikið að komast að kryfja málið. Kann þingmaðurinn til dæmis ekki að binda hnút? Listin að hnýta góðan hnút er ekki meðfædd og ekki öllum eðlislægt. Ef svo er hefði þingmaðurin getað beðið samflokksmann sinn Steingrím J. Sigfússon-sem skartar gjarnan góðum bindishnútum að hnýta bindishnút fyrir sig.

Ekki má útiloka þann möguleika að þingmaðurinn sé mótfallinn notkun hálsbindis af ídelógískum ástæðum. Dæmi um slíkt er sú kenning að bindishnútur sé ekkert annað en hengingaról sú sem kapítalisminn hefur á almenningi! Sé svo máli hér farið, er ekkert annað við því að segja en…..já kannski það!

Gæti verið að þingmaðurinn sé af tískupólitískum ástæðum á móti hálsbindum? Smekkur manna á tísku er misjafn, og lagaboð um störf þingsins virðast ekki banna þingmönnum að vera í takti við tískuna, eða vera eins og gangandi tískuslys. Það má sjá daglega í þinginu og er þjóðrifamál að keppni um best klædda þingmanninn eða sá púkalegasta verði ýtt úr vör á Rás tvö.

Komið er að síðasta atriði þessarar ráðgátu um bindið-eða bindisleysið frekar. Var það kannski svo að þingmaðurinn gleymdi bindinu heima og hafði ekki tíma til þess að sækja það? Ef svo var í pottinn búið hefði hann hugsanlega geta fengið lánað bindi hjá samþingmönnum sínum-nú eða kannski hálsklút eða slæðu Kolbrúnar Halldórsdóttur og hnýtt á það bindishnút og brugðið undir kragann. Kolbrún skartar jú oft fallegum slæðum og sjölum.

Sannleikurinn er hins vegar sá að Helgarnestinu er nokk sama hvort þingmenn gangi með hálstau eður ei. Ef slíkt er hefð eiga menn að virða þá hefð og hnýta á sig bindi eða slaufu áður en farið er í þingsal. Ef menn vilja vera öðruvísi en aðrir, verða þeir víst bara að eiga það við sig sjálfa.

Fjölmiðlar hafa gert að umtalsefni að varaþingmaðurinn hafi verið bindislaus, en ekki var fjallað í því samhengi hvort hann hafi sagt eitthvað af viti í ræðu sinni sl. þriðjudagskvöld. Og ekki gerðu fjölmiðlar það að umtalsefni að varaþingmaðurinn endaði ræðu sína með frekar kauðslegri þýðingu eða útleggingu á texta John Lennon úr laginu Imagine eitthvað svohljóðandi: ,, Það eru ef til vill einhverjir sem kalla mig draumóramann en ég er ekki sá eini. Og einn daginn munu fleiri ganga í lið með okkur og heimurinn verða sem einn”. Og var þó full ástæða til þess að ræða slíkar þýðingar í ræðum.

Bindislausi þingmaðurinn er dæmi um það þegar aðalatriðin drukkna í smávægilegu aukaatriði. Í sjálfu sér er ekkert fréttnæmt við þetta.

Frekar hefði verið rétt að athuga hvort þingmaðurinn hefði farið rétt með tilvitnanir í ræðu sinni. Eða hvort umfjöllun hans væri hafin yfir gagnrýni.

Eða var bindisleysið ekkert annað en leið til þess að vekja á sér athygli, þar sem ræða viðkomandi virtist ekki geta kveikt eldmóð í kjósendum.

Væntanlega hefur þó eitthvað álíka heyrst á mögum þeim heimilum þar sem fylgst var með þessu æsispennandi sjónvarpsefni: ,, Guð… varaþingmaðurinn er ekki með bindi. Ætli Davíð…ég meina Halldór viti af þessu?”

Og þá var tilganginum væntanlega náð sem varaþingmaðurinn lagði upp með?

Góða helgi!

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.