Auglýst eftir pabba

sdfdAbraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júdam og Al Gore gat internetið. Hingað til hefur helgarnestið verið algjörlega sannfært um að Al Gore hafi fundið upp internetið, og að honum ættum við öll að þakka þetta undursamlega fróðleikstæki sem netið er í raun og veru.

Al og Tipper Gore

Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júdam og Al Gore gat internetið. Hingað til hefur helgarnestið verið algjörlega sannfært um að Al Gore hafi fundið upp internetið, og að honum ættum við öll að þakka þetta undursamlega fróðleikstæki sem netið er í raun og veru. Án internets væru öll samskipi hægari, heimurinn flóknari, heimildaöflun erfiðari, (Innskot prófarkarlesara: heimildaöblun) besservisserar (Innskot Málverndunarstofnunar Íslands: Vitabetrungur) sjaldan leiðréttir, og Helgarnestið í dag líklegast upptekið við leturgröft (sic!) í kartöflur til þess að búa til sats til þess að þrykkja þessa grein á.

Helgarnestið hefur því hingað til talið að það væri heilagur sannleikur að Al Gore hafi ekki aðeins fundið upp Internetið, heldur teljist hann einnig hinn eiginlegi faðir þess. (Innskot hvíslara: Þegiðu!) Helgarnestinu minnir nefnilega að faðerni Internetsins sé meðal annars það sem hann hafi lesið á sjálfu Internetinu. En helgarnestið er svo sem breyskt eins og önnur nesti (Innskot Félags drykkfelldra rithöfunda: Just det, skål!) og getur þess vegna skjátlast.

Helgarnestinu finnst í raun og veru ekkert athugavert við að lagamenntaður maður, eins og Al Gore, finni upp eins og eitt stykki Internet, enda hefur Helgarnestið sjálft numið lög og getur nú orðið nokkuð skammlaust kveikt og slökkt á tölvu, ásamt því að vera orðinn nokkuð lunkið í notkun myndskreytingarforritsins Paint Brush

Því kom það Helgarnestinu all verulega á óvart þegar það komst að því á dögunum að faðir Internetsins væri alls ekki Al Gore, heldur maður að nafni Vinton Cerf. Vinton þessi á að hafa búið til TCP/IP samskiptareglur ( Innskot listræns stjórnanda Þjóðlekhússins: Út með þetta tækniþrugl, hvað er þetta eiginlega!) fyrir tölvur og því oft nefndur Internetspabbi af þeim sem til sköpunar fyrirbærisins þekkja. Fram kom í fréttum að hann hefði verið ráðinn af Google (Innskot Íslenskra málverndunaranarkista: Gúgl, að gúgla) til þess að vinna að nýjum tæknilausnum fyrir netið.

Sjaldan eða aldrei hefur Helgarnestinu brugðið jafn mikið við ein tíðindi. Hvernig getur það verið að Al Gore sé ekki pabbi Internetsins. Var hann allan tímann að segja ósatt, eða var helgarnestinu sagt ósatt, eða vildi það einfaldlega ekki trúa öðru en að Gore hafi verið forvígismaður netsins. Var þetta kannski trúarspursmál helgarnestisins? (Innskot sálfræðings: BINGÓ!)

Svo er því kannski farið að Internetið er ef til vill ekki alltaf traustasti miðillinn eða traustasta heimildin þegar hafa þarf það sem sannara reynist. Því er helgarnestinu létt við þá staðreynd að misskilningurinn að Al Gore sé faðir Internetsins teljist nú leiðréttur. Vinton Cerf á krógann. Að minnsta kosti las Helgarnestið um ofangreint á Internetinu. Vinton Cerf fann upp Internetið. Internetið staðfestir að Vinton Cerf hafi fundið sig upp. Ergo Vinton Cerf er faðir Internetsins. (Innskot Félags atvinnuheimspekinga í rökfræði: Þú ert nú meira fíflið!)

Góða helgi!

(Helgarnestið þakkar þeim fjöldamörgum aðilum sem lásu það yfir og lögðu til ritunar þess. Án þeirra hefði það aldrei verið skrifað)

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.