Já og nei!

Undirritaður mætti nýlega á merkilegan fund Heimdallar um íslenska landbúnaðarkerfið. Á einum stað tjáði hinn fluggáfaði og fjallmyndarlegi frummælandi Jón Steinsson þá skoðun sína að hann héldi að íslenskur mjólkuriðnaður gæti hugsanlega staðið undir sér, en bað þó enga síður alla sem vissu betur að leiðrétta sig.

Undirritaður mætti nýlega á merkilegan fund Heimdallar um íslenska landbúnaðarkerfið. Á einum stað tjáði hinn fluggáfaði og fjallmyndarlegi frummælandi Jón Steinsson þá skoðun sína að hann héldi að íslenskur mjólkuriðnaður gæti hugsanlega staðið undir sér, en bað þó enga síður alla sem vissu betur að leiðrétta sig.

Ekki stóð á svörum hjá fulltrúa kúabænda á svæðinu sem bað um orðið og kom með rök, meira að segja tvenn rök fyrir því hvers vegna erfitt væri fyrir íslenska mjólk að keppa við erlenda.

Rök númer 1. Það er mjög kalt á Íslandi og því þurfa kýrnar að vera inni meira og minna allan ársins hring. Þessu fylgi auðvitað mikill kostnaður.

Rök númer 2. Íslenskir bændur hugsa vel um dýrin sín. Erlendis þekkist það meira að segja að beljunum sé aldrei sleppt út á tún heldur séu þær hafðar inni allan ársins hring.

Í fljótu bragði gæti einhverjum virst sem ofannefnd rök útiloki hvert annað. P og ekki P. Og vissulega er það svo. Hins vegar getur það auðvitað verið mjög sterkt að beita slíkum rökum. Ef viðmælandinn ræðst að einum þeirra er hann um leið búinn að viðurkenna hin. Og hvað snúast rökræður um annað en að einhver gúdderi rökin manns?

Það er mikil list að ná góðum tökum á umræddri röksemdartækni. Lesendur geta æft sig á að búa til slíkar hringavitleysur en hér eru nokkrar hugmyndir sem menn geta nýtt sér næst þegar þeir lenda í rökræðum.

1. Allt tal um að Ísland glati fullveldi sínu með inngöngu í Evrópusambandið er kjaftæði. Hugtök eins og „fullveldi“ eru orðin úreld nú á dögum alþjóðasamvinnu. Þess vegna verður Ísland að ganga í Evrópusambandið. Aðild Íslands að ESB mun treysta fullveldið.

2. Við eigum að setja innflutningshömlur á mjólk og kjötvörur. Íslenskir bændur gætu ekki staðist samkeppni við erlenda framleiðslu. Þar að auki mundu íslenskir neytendur ekki kaupa útlenda mjólk hvort eð er.

3. Skylduaðild að stéttarfélögum er góð hugmynd. Ef henni yrði aflétt mundi engin vilja vera í stéttarfélagi. Allir vilja vera í stéttarfélagi.

4. Hommar eiga ekki að fá að ættleiða erlend börn. Börn hafa rétt á því að alast upp hjá bæði föður og móður. Hommar ættu að fá að ættleiða íslensk börn.

5. Við eigum að reka Ríkissjónvarp. Það er nauðsynlegt að hafa trausta og óháða fréttastofu. Þar að auki er nauðsynlegt að hafa fréttastofu sem lumbrar á Baugi.

6. Íbúðalánasjóður er nauðsynlegur til að tryggja Íslendingum aðgengi að hagstæðu lánsfé. Íbúðalánasjóður á erfitt uppdráttar því engin vill fá lánað hjá honum.

7. Ríkið á að reka áfengisverslun. Hátt verð á áfengi heldur áfengisneyslu niðri. Ef smásala áfengis yrði gefin frjáls mundi verð hækka og neysla aukast.

En ætli það lesi einhver þennan pistil? Fólk er alltaf svo upptekið að klára eitthvað í vinnunni á föstudögum. Þar að auki gerir engin neitt á föstudögum.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.