Fréttamennska á lágu plani

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðustu viku var sagt frá tveimur skýrslum um þjóðhagsleg áhrif stóriðju. Önnur var vel rökstudd en hin var bull. Samt var þeim gert jafnt til höfuðs af fréttastofunni. Er ekki hægt að ætlast til þess að fréttamenn kynni sér aðeins trúverðuleika þess sem þeir eru að segja fréttir af?

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 síðastliðinn miðvikudag var sagt frá nýrri skýrslu greinardeildar KB banka um þjóðhagsleg áhrif stóriðju á Íslandi. Helsta niðurstaða skýrslunar er sú að þjóðhagslegur ávinningur af stóriðju hefur verið lítill. Þessi niðurstaða byggir á því að álverin nota tiltölulega lítið af innlendum framleiðsluþáttum eftir að þau eru tekin til starfa. Álverin eru í eigu erlendra aðila og hráefnið kemur erlendis frá. Einu innlendu framleiðlsuþættirnir sem álverin nota eru vinnuafl og raforka. Þjóðhagslegur ávinningur af álverunum er aðallega tilkominn vegna notkunar á raforku. Þetta er vegna þess að gera má ráð fyrir að starfsfólkið sem vinnur í álverinu hefði fengið álíka störf annars staðar í hagkerfinu ef álverin hefðu ekki verið byggð. Þjóðhagslegur ávinningur er lítill að mati KB banka vegna þess að Landvirkun hefur í gegnum tíðina selt raforkuna nálægt kostnaðarverði.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 næsta dag var síðan sagt frá annarri rannsókn á þjóðhagslegum ávinningi stóriðju á Íslandi. Sú rannsókn var unnin af Samtökum Iðnaðarins. Hún komst að þeirri niðurstöðu að VLF væri 60 til 70 prósentum meiri en hún væri ef ekki hefði verið farið út í stóriðju á Íslandi. Þetta þýðir að Íslendingar væru í dag fátækari en Suður Kóreumenn ef stóriðju hefði ekki notið við. Gögn Hagstofunar sýna að framlag stóriðju til VLF er um 1.3%. Mat SI þýðir því að margföldunaráhrif stóriðju hafa verið 29 föld og eru jöfn öllum landbúnaði, fiskveiðum, fiskvinnslu, öðrum iðnaði og byggingastarfsemi.

Í stuttu máli þá er skýrsla KB vel rökstudd en rannsókn Samtaka Iðnaðarins tómt bull. En þrátt fyrir það þá var þessum tveimur skýrslum gert jafn hátt til höfuðs í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Þetta er því miður allt annað en einsdæmi. Fjölmiðlar á Íslandi virðast vera gæddir gagnrýnni hugsun í mjög litlum mæli. Og það sem verra er, þeir segja fréttir af skýrslum og skoðunum alls kyns aðila án þess að kynna sér hið minnsta hvort eitthvað vit er í viðkomandi skýrslu eða viðkomandi skoðun. Þetta gera þeir iðulega jafnvel þótt viðmælendur þeirra eigi oft á tíðum augljósra hagsmuna að gæta og því sé full ástæða til þess að efast um hlutlægni þeirra.

Sumir myndu segja að svona eigi þetta að vera. Allar skoðanir eiga að koma fram í fjölmiðlum (hversu vitlausar sem þær eru). Þeim mun fleiri hliðar á máli sem fólk heyrir þeim mun betur er það í stakk búið til þess að taka upplýsta afstöðu til málsins.

Þetta er hins vegar afskaplega ófullkomin röksemdafærsla. Tökum dæmi (sem lesendur Paul Krugman munu kannast við): Segjum að einhver sjálfskipaður spekingur haldi því fram að jörðin sé flöt. Núverandi starfshættir fjölmiðla á Íslandi myndu leiða til þess að fréttafyrirsögnin væri: „Lögun jarðarinnar: skiptar skoðanir” og fréttin myndi gefa spekingnum jafn marga dálksentimetra og prófessornum sem héldi því fram að jörðin væri hnöttót. Sá sem engin deili kann á viðmælendunum tveimur (segjum að þeir hafi báðir voða flott starfheiti) veit ekki hvað hann á að halda. Kannski er jörðin flöt!

Það sem vantar augljóslega í slíka frétt er sú afskaplega mikilvæga staðreynd að nánast allir sem hafa kynt sér rannsóknir og gögn um lögun jarðar eru sammála um að jörðin sé hnöttót og einnig það að gríðarlegt magn tilrauna hafa sýnt fram á það svo ekki verður um villst að jörðin sé hnöttót.

Með öðrum orðum, það sem vantar í fréttina er að sjónarmiðunum sé gefið mismunandi vægi eftir því hversu vel rökstudd þau eru. Íslenskir fjölmiðlar leggja það allt of sjaldan á sig að kynna sér hversu áreiðanlegar hinar og þessar rannsóknir og/eða skoðanir eru. Hversu stór hluti þeirra sem eitthvað vit hefur á málinu er sammála þeim og hversu mikið af gögnum styðja þær.

Þetta er afskaplega bagalegt því þetta gerir það að verkum að alls kyns þrýstihópar eiga auðvelt með að núlla út vel unnar rannsóknir sem studdar eru af traustum gögnum og tilraunum með því að setja fram eitthver ruslvísindi. Þrýstihóparnir vita að þeir þurfa ekki að sannfæra fólk um að þeirra kenning sé rétt. Þeir þurfa aðeins að fá fólk til þess að efast um hina rannsóknina. Þ.e. fá fólk til þess að vita ekki hvað það á að halda.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.